Epal hf. hagnaðist um 60,3 milljónir króna árið 2016 borið saman við 39,7 milljónir árið 2015. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2016. Jókst hagnaður fyrirtækisins því um rúmlega helming milli ára og var hagnaður síðasta árs þrefaldur á við árið 2013. Epal selur gæðahúsbúnað frá Norðurlöndunum og víðar í höfuðstöðvum sínum í Skeifunni og í þremur hönnunarverslunum, í Hörpu, á Laugavegi 70 og í Kringlunni.

Sala Epal nam 1,2 milljörðum króna á síðasta ári en var tæplega 947 milljónir árið áður. Jókst velta Epal um tæplega 30% í fyrra. Sölutekjur Epal hafa ekki verið gefnar upp ársreikningum félagsins undanfarin ár.

Eins konar hönnunarkaupfélag

„Við erum bara á uppleið, það er ekkert flóknara en það,“ segir Eyjólfur Pálsson, stofnandi, forstjóri og stærsti eigandi Epal, í samtali við Viðskiptablaðið. „Það selst ekkert eitt betur en annað. Salan er jöfn þó við séum með marga flokka. Ég segi stundum að Epal sé eins konar hönnunarkaupfélag. Í kaupfélögunum í gamla daga fékkst allt og hjá okkur fæst allt.“

Eyjólfur vildi ekki gefa upp hvort met hafi verið slegið í sölu Epal í fyrra eða hvernig salan svipar til ársins 2007, en sagði söluaukninguna góða. „Hvenær er met? Þetta er bara eðlileg aukning miðað við hvernig aðstæður eru í þjóðfélaginu í dag.“
Eyjólfur segir rekstur Epal batna með hverju árinu sem líður.

„Þetta hefur verið hægt og sígandi upp á við í gegnum árin. Þetta vinnur vel, er með gott eigið fé og skynsaman rekstur, en það er ekkert tekið út úr fyrirtækinu. Skilningur fólks á hönnun og gæðum er að aukast. Við fáum verk í útboðum af því að við erum lægstir. Svo bera menn líka virðingu fyrir fyrirtæki sem er 42 ára gamalt og hefur alltaf verið á sömu kennitölunni. Ég held að það sé allt of sjaldgæft.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Íhugað er að rífa höfuðstöðvar Íslandsbanka við Kirkjusand
  • Kröfur Alvogen á hendur rússnesku fyrirtæki
  • Aukin útlán sem eitt að hættumerkjunum í hagkerfinu að mati Seðlabankans
  • Áhuga stjórnvalda á fríverslun milli Íslands og Bretlands og skaðsemi inngöngu í ESB
  • Nýja netverslun gamalgróinnar íslenskrar verslunarkeðju sem nær vel til kvenna
  • Fjármögnun grænnrar útrásar lítillra og meðalstórra fyrirtækja frá Norðurlöndunum
  • Rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi samanborið við Norðurlöndin og tillögur til úrbóta
  • Páll Kr. Pálsson framkvæmdastjóri Glófa, sem framleiðir Varma ullarvörurnar, er í ítarlegu viðtali
  • Ný uppskriftarbók fyrir pottrétti af öllu tagi eftir Nönnu Rögnvaldsdóttur
  • Frumkvöðlafyrirtæki sem býður starfsmönnum fyrirtækja að velja hvaða hádegismatur er í boði
  • Lýður Þór Þorgeirsson segir hvernig hann leiddist inn í fjármálaheiminn og hvernig rafmagnsverkfræðin nýtist í dag
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs
  • Óðinn skrifar um efnahagslegt frelsi, jafnrétti og bræðralag meðal manna