Hönnunarverslunin Epal hagnaðist um 83,2 milljónir á síðasta ári samanborið við 60,3 milljóna króna hagnað árið 2016. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2017. Hagnaður félagsins jókst því um 38% á milli ára og var hagnaður síðasta árs rúmlega fjórfaldur á við árið 2013. Epal selur gæðahúsbúnað frá Norðurlöndunum og víðar í höfuðstöðvum sínum í Skeifunni og í þremur hönnunarverslunum, í Kringlunni, Hörpu og á Laugavegi 70.

Sala Epal nam 1,4 milljörðum króna á síðasta ári en árið áður nam hún 1,2 milljörðum króna. Því jókst velta Epal um tæplega 17% í fyrra. Rekstrarhagnaður Epal fyrir afskriftir var 118 milljónir á síðasta ári en var 82,9 milljónir króna árið 2016. Árið 2014 nam rekstrarhagnaðurinn 50,6 milljónum og árið 2013 var hann 35,3 milljónir.

Leggja áherslu á skynsemi í rekstri

Eyjólfur Pálsson, stofnandi, forstjóri og stærsti eigandi Epal, hefur rekið Epal í 43 ár. Hann segir að grundvöllurinn undir Epal sé hönnun og að skilningur landsmanna á hönnun hafi aukist. Epal finni fyrir miklu trausti í sinn garð frá viðskiptavinum, sem sé mjög mikilvægt.

„Við erum í samkeppni við fullt af aðilum. Við einbeitum okkur að því að skara fram úr með því að bjóða upp á vandaðar hönnunarvörur í hæsta gæðaflokki og toppþjónustu. Við búum einnig svo vel að vera með öflugan framkvæmdastjóra í Kjartani Páli Eyjólfssyni, sem er lærður í markaðsfræðum og hefur sömuleiðis aflað sér víðtækrar reynslu á vinnumarkaði. Við leggjum sömuleiðis mikla áherslu á að bjóða upp á gott úrval af íslenskri hönnun. Auk þess höfum við á að skipa frábæru starfsfólki sem skilur okkar áherslur fullkomlega. Það er algjört lykilatriði.“

Eyjólfur bendir á að þó að það gangi vel núna sé fyrirtækjarekstur ekki alltaf dans á rósum og að fyrirtækið hafi eins og flest önnur upplifað erfiða kafla. Efnahagshrunið árið 2008 sé nærtækasta dæmið en að sögn Eyjólfs hefur ávallt verið lögð mikil áhersla á skynsemi í rekstri innan raða fyrirtækisins.

Blikur hafa verið á lofti í samfélaginu og telja margir að toppi hagsveiflunnar hafi verið náð. Spurður um hvort hann óttist að þessi þróun gæti haft neikvæð áhrif á rekstur Epal, svarar Eyjólfur neitandi. „Ég tel að fólk hugsi sig um og kaupi vandaðar vörur frekar en eitthvað sem býr yfir minni gæðum og endist því mun skemur. Ef þú berð verðið á vörunum okkar saman við hvað þær kosta í öðrum löndum, kemur í ljós að við erum í mörgum tilfellum að bjóða upp á ódýrari verð. Við erum því bjartsýn fyrir framtíðinni.“

338 milljóna króna eigið fé

Eignir Epal námu 569,5 milljónum króna í lok síðasta árs samanborið við 470,8 milljónir árið áður. Skuldir námu 231,6 milljónum en var 203,1 milljón í lok árs 2016. Þá var eigið fé Epal 337,9 milljónir í lok síðasta árs en var 267,7 milljónir árið áður. Eiginfjárhlutfall Epal var því rúmlega 59%. Handbært fé Epal í árslok 2017 nam 139,4 milljónum króna og lækkaði handbært fé um 3,9 milljónir milli ára.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um sögu Samherjamálsins.
  • Úttekt á afkomu bankanna á þriðja ársfjórðungi.
  • Viðtal við Xiaoqiong Hu yfirmaður viðskiptaþróunar í Evrópu hjá Alipay.
  • Umfjöllun um verðmat á Högum.
  • Fjallað er um breytingar á innflæðishöftum og vaxtahækkun SÍ.
  • Huginn og Muninn og Óðinn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um Samherjamálið