Nótt Thorberg tók við nýrri stöðu framkvæmdastjóra Marel á Íslandi þegar hún kom úr fæðingarorlofi en hún störf þar sem markaðsstjóri árið 2012.

„Það sem við erum að gera með þessari breytingu er að við erum að fá meiri snerpu í starfsemina hérna heima. Við erum með starfsstöðvar út um allan heim, í 30 löndum og svo með framleiðslueiningar í níu löndum. Í því felst samþætting og innleiðing rekstrarmarkmiða og stefnu Marel. Það má líkja þessu við boðhlaup, við vitum stóra takmarkið og heildarmyndina, þegar við tökum við keflinu, en svo er það okkar hérna í Garðabænum að vinna að og framkvæma hana með sem skilvirkustum hætti,“ segir Nótt en jafnframt tekur hún fram að þau vilji að þetta sé góður vinnustaður.

„Þetta starf kemur líka mikið inn á að halda góðum tengslum við haghafa hérna heima á Íslandi, eins og til dæmis tækni- og háskólasamfélagið.“

Tók mastersgráðu í Skotlandi

Nótt hefur komið víða við, var í listum og ferðabransanum og svo leiddist hún út í markaðsfræðina „Ég tók tvær diplómur í markaðsfræðum á vegum Chartered Institute of Marketing, ásamt mastersgráðu frá University of Strathclyde í Skotlandi, en ég hef eiginlega alltaf verið í námi með störfum mínum. Mér finnst gaman að hafa marga bolta á lofti í einu,“ segir Nótt en áður hafði hún starfað hjá Samskipum í rúm átta ár.

„Það kom mér bara skemmtilega á óvart hvað Skotar eru líkir okkur. Þeir hafa náttúrulega verið að heyja sína sjálfstæðisbaráttu núna nokkuð á eftir okkur og þjóðarsálin og gildin eru mjög lík okkar. Þetta var því mjög góður stað ur til að læra, þetta er ein fremsta markaðsfræðiakademían í heiminum í dag,“ segir Nótt en nú tekur fjölskyldan mikið af frítíma hennar þó hún sé jafnframt virk í félagsstarfi, en hún er núverandi formaður í Stjórnvísi, félags um faglega stjórnun, hún situr í stjórn Íslensku ánægjuvogarinnar og hún er meðal stofnenda félagsins Konur í sjávarútvegi, þar sem hún stýrir rannsóknarverkefni um aðkomu kvenna að sjávarútvegi.

Fór seint að stækka fjölskylduna

„Ég er með tvo orkubolta heima núna, en ég fór svolítið seint af stað með að stækka fjölskylduna. Ég og sambýlismaður minn, Sigurjón H. Ingólfsson, höfum verið saman í töluverðan tíma og eigum við tvö börn, annað er stúlka fædd fyrir tveimur árum, hún heitir Ótta, svo á ég lítinn strák sem heitir Tími, hann fæddist í september,“ segir Nótt að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .