Njáll Trausti Friðbertsson, sem kosinn var á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum í haust í fyrsta sinn, hefur lýst yfir áhyggjum af tillögum um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna.

Njáll Trausti styður ekki hækkunina í núverandi mynd að því er segir í frétt Vísis um málið, en ríkisstjórnin hefur, eins og fram hefur komið, einungis eins þingmanns meirihluta.

Ferðaþjónusta á landsbyggð enn í uppbyggingu

„Það þarf að finna einhverja lausn á þessu,“ segir Njáll Trausti sem situr í fjárlaganefnd Alþingis.

„Ég hef miklar áhyggjur varðandi ferðaþjónustuna á landsbyggðinni sem er í uppbyggingar fasa og á allt öðrum stað en á höfuðborgarsvæðinu.“

Hækkar fyrst en lækkar svo hálfu ári seinna á ný

Samtök ferðaþjónustunnar hafa mótmælt tillögunni um hækkun skattsins sem kemur fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er þar gert ráð fyrir því að skatturinn hækki upp í efra þrep, sem er nú 24% þann 1. júlí árið 2018, en lækki svo niður í 22,5% þegar virðisaukaskattþrepið allt saman er lækkað 1. janúar 2019.

Auki svarta atvinnustarfsemi

Njáll Trausti telur að hækkunin muni auka á svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu, en hann hefur óskað eftir umsögnum um tillöguna fyrir fjárlaganefnd. Búist er við að fjármálaáætlun verði afgreidd úr nefndinni fyrir sumarfrí og hún muni síðan koma inn í fjárlög næstkomandi haust.

Segir hann því töluverðan tíma til stefnu og allt ferlið enn á umræðustigi, og því ráðrúm til að bæta tillöguna með hliðsjón af þeim áhyggjum sem hafi verið varpað fram.

Hins vegar hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, sagt að ekki væru lengur rök fyrir því að stærsta atvinnugreinin sé á undanþágu frá því að vera á almennu virðisaukaskattþrepi.