Fréttir berast af því að eitthvað sé að rofa til á Nígeríumarkaði með innflutning á uppsjávarfiski en óvissa er enn mikil.

„Nígeríumarkaður er að opnast á ný. Það er fjármagn til staðar, farmar hafa verið sendir nýlega þangað og markaðurinn lítur vel út það sem eftir er ársins. Ég er bjartsýnn." Þetta hefur sjávarútvegsvefurinn Undercurrentnews.com eftir Diek Parlevliet, forstjóra hollenska sjávarútvegsrisans Parlevliet & Van der Plas.

„Það er ekki gott að segja hvort eitthvað sé að breytast,“ segir Hermann Stefánsson framkvæmdastjóri Iceland Pelagic í samtali við Fiskifréttir. „Nígerísk stjórnvöld eru búin að gefa út innflutningskvóta fyrir árið í heild en undanfarin ár hafa kvótarnir verið gefnir út fyrir hálft ári í senn auk þess sem þeir hafa verið gefnir út seint og um síðir. Hins vegar er enn skortur á innflutningsleyfum, svokölluðu „Form M“ sem mismunandi stjórnvöld í Nígeríu deila um hvort og hvernig eigi að gefa út.“

Hermann segir að ástandið sé allt mjög óljóst. „ Við bindum vonir við að hægt verði að selja eitthvað meira til Nígeríu en í fyrra, ef liðkað verður fyrir innflutningsleyfum, það eru a.m.k. færri hindranir.“ sagði Hermann.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.