*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 10. júní 2017 13:48

Er Tesla ofmetið?

Margir eru efins um að gríðarhátt markaðsvirði Tesla sé réttlætanlegt.

Ritstjórn
Menn hafa mismikla trú á Elon Musk.

Virði rafbílaframleiðandans Tesla fór fram úr virði lúxusbílaframleiðandans BMW í gær, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um. Þessar fréttir eru hreint út sagt ótrúlegar í ljósi þess að markaðsvirði BMW var 30 milljörðum Bandaríkjadala hærra í desember. Markaðsvirði Tesla fór upp fyrir bílaframleiðendurna General Motors og Ford í apríl, en lúxusframleiðendur á borð við BMW eru gjarna hærra metnir. 

Kevin Tynan, sérfræðingur hjá Bloomberg Intelligence þegar kemur að bílamarkaði, skilur ekki að Tesla sé tekið fram úr BMW, en hlutabréf fyrirtækisins ruku upp í verði eftir að Elon Musk tilkynnti áform um að hefja framleiðslu á hinum nýja Model 3 bíl í júlí.

„Rökin eru þau að Tesla geti gert hluti sem aðrir geta ekki og að þeir muni hafa betur því þeir einblína eingöngu á rafmagnsbíla,“ sagði Tynan við Bloomberg.

„Þetta er lélegur rökstuðningur. Þú getur ekki haldið því fram að BMW geti ekki gert það sem Tesla er að gera.“

Tesla tók jafnframt dýfu þegar líða tók á daginn. Hlutabréf í fyrirtækinu féllu um 5% frá því að þau náðu hámarki. Þar spilaði hugsanlega inn í sú staðreynd að Hedgeye Risk Management tilkynnti að það væri ein af sínum bestu hugmyndum að skortselja hlutabréf fyrirtækisins.

Fjárfestar á borð við Jim Chanos, sem græddi fúlgur fjár á að veðja á fall orkurisans Enron á sínum tíma, bendir á að Tesla hafi einungis tekið að skila hagnaði á tveimur ársfjórðungum í sögunni. Hann telur að Musk muni brenna milljarða Bandaríkjadala til að fjármagna háfleyga drauma sína.

„Við teljum að þeir muni tapa um 750 milljónum til milljarðs Bandaríkjadala á ársfjórðungi næstu ársfjórðunga,“ sagði Chanos á Bloomberg Invest ráðstefnunni í New York á þriðjudag.

„Fyrsta stóra áskorun Tesla er Model 3 bíllinn. Tesla hefur verið að tapa peningum seljandi 120.000 dollara bíla en ætlar sér að græða peninga á að selja 35.000 dollara bíla."

Ljóst er að Tesla á enn langt í land með að ná BMW. Þýski framleiðandinn seldi næstum því 2,4 milljónir bíla árið 2016 á meðan Tesla seldi færri en 80.000. Tesla tapaði 725 milljónum dala árið 2016 á meðan BMW græddi 7,7 milljarða.

Stikkorð: BMW Tesla Elon Musk
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim