Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, stundaði framhaldsnám við Georgetown University í Bandaríkjunum. Það vildi þannig til að skólafélagi Ragnheiðar var Filippus VI, sem þá var krónprins Spánar.

Árið 2004 var Ragnheiði boðið í brúðkaup prinsins. „Það var mikil upplifun. Hann kom líka í mitt og hann segir fólki örugglega að það hafi verið upplifun líka. Það var samt aðeins meira tilstand hjá honum en jafnmikið stuð í báðum brúðkaupum,“ segir Ragnheiður og hlær.

„Þetta er mjög þéttur vinahópur frá þessum árum. Þetta er svona tíu manna hópur og við höfum elt hvert annað út um allan heim í brúðkaup og stórar stundir. Við reynum að hittast og hittumst núna síðast í haust í New York.“ Ragnheiður ber kónginum góða sögu. „Hann er dásamleg manneskja og góður vinur. Það verður aðeins meira vesen að fá hann í heimsókn núna þegar hann er orðinn kóngur heldur en þegar hann var prins. Þá var hægt að lauma honum hérna bakdyramegin en það verður eitthvað erfiðara núna. Við erum að vinna í því!“

Ragnheiður Elín er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .