Í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs Íslands, sem ber heitið Nýsköpunarheit, leggur nýsköpunarhópur ráðsins til tíu aðgerðartillögur um hvernig efla megi nýsköpun í íslensku samfélagi til að auka verðmætasköpun og stuðla að sjálfbærum hagvexti til lengri tíma. Viðskiptaráð hyggst setja fimm þeirra á oddinn en hinar fimm eru áskoranir til stjórnvalda.

Tólf meðlimir skipa nýsköpunarhóp Viðskiptaráðs; Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafar og sérlausna hjá Advania, Kolbrún Hrafnkelsdóttir,  forstjóri Florealis, Kristinn Árni L. Hróbjartsson, ritstjóri Northstack, Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel, Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar, Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, Þórey Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent og Ægir Þórisson, forstjóri Advania.

Tíu tillögur um eflingu nýsköpunar

Þær aðgerðartillögur sem Viðskiptaráð ætlar að setja á oddinn og beita sér fyrir eru eftirfarandi:

  • Stuðla að aukinni hugverkavernd
  • Auka þekkingu á stuðningskerfinu og fjármögnunarleiðum
  • Opna verkefnagátt viðskiptalífsins
  • Ráðast í kynningarherferð um frumkvöðlastarf og nýsköpun
  • Opna mælaborð nýsköpunar

Áskoranir nýsköpunarhópsins til stjórnvalda:

  • Auka skilvirkni og efla stuðningskerfi nýsköpunar
  • Fylgja eftir fyrirheitum um stafræna þjónustu
  • Auðvelda frumkvöðlum að stofna fyrirtæki
  • Efla hvata til rannsókna og þróunar
  • Stuðla að fjölgun raunvísinda- og tæknimenntaðra

Í skýrslunni er meðal annars lagt til að átak verði gert í fjárfestingarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja í gegnum Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Þar verði sérstaklega hugað að því að laða erlenda fjárfesta til landsins. Þá er lagt til að umsjón beinnar erlendrar fjárfestingar verði fært til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í nýrri mynd og að greining verði unnin á því hvort hluti þess fjármagns sem rennur til Íslandsstofu myndi nýtast betur í samkeppnissjóðum.

Einnig er lagt til að skapaður verði rammi fyrir nýtt félagaform til að auðvelda frumkvöðlum að stofna fyrirtæki og þróa hugmyndir á fyrstu stigum, en samkvæmt skýrslunni er auðveldara að stofna fyrirtæki í Líberíu heldur en á Íslandi. Í alþjóðlegum samanburði varðandi hversu auðvelt sé að stofna fyrirtæki, sitji Ísland í 55. sæti á milli Líberíu og Benín og standi hinum Norðurlöndunum langt að baki. Það sé flókið, tímafrekt og kostnaðarsamt að stofna fyrirtæki hér á landi.

Til að vinna bug á þessu vandamáli er sett fram hugmynd að nýju félagaformi sem nefnist frumkvöðlafélag. Í skýrslunni segir að samkvæmt hugmyndinni „myndi ekkert kosta að skrá slíkt félag og ekki þyrfti að leggja því til hlutafé, ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum yrði ennfremur takmörkuð við hlutafé og ekki gerð skylda um launagreiðslur til starfsmanna að því gefnu að umræddir starfsmenn séu einnig hluthafar. Arðgreiðslur úr slíku félagi yrðu óheimilar og líftími slíks félags yrði að hámarki tvö ár. Að þeim loknum yrði unnt með einföldum hætti að umbreyta félaginu í hefðbundið einkahlutafélag ef vilji eigenda fyrir áframhaldandi þróun og vexti er fyrir hendi, með tilheyrandi kröfum um hlutafé, stofnkostnað, launagreiðslur og annað sem fallið væri frá í tilvikum frumkvöðlafélaga. Heildarsparnaður frumkvöðuls á fyrsta starfsári fyrirtækisins gæti því numið hátt í fimm milljónum króna."

Loks er lögð áhersla á nauðsyn þess að efla hvata til rannsókna og þróunar í skrefum til ársins 2030, fyrst með hækkun þaks á endurgreiðslur vegna slíkra útgjalda og síðar með hækkun endurgreiðsluhlutfalls.

Tími nýsköpunar er núna

Sigríður Margrét Oddsdóttir, formaður nýsköpunarhópsins, segir að áframhaldandi lífsgæðasókn og aukin verðmætasköpun byggi á öflugu og þróttmiklu nýsköpunarstarfi.

„Við í nýsköpunarhópnum ræddum það þegar við vorum að hefja störf, hver okkar sýn væri og tilgangur þess að fara af stað með þessa vinnu. Okkar sýn er sú að nýsköpun feli í sér aukna verðmætasköpun í atvinnulífinu. Nýsköpun er í dag mikilvægur hluti af starfsemi allra fyrirtækja í landinu og því er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir allt atvinnulífið."

Að sögn Sigríðar voru meðlimir hópsins sammála um það að tími nýsköpunar væri núna. „Okkur þótti tilvalið að koma fram með nýsköpunarheit nú í upphafi árs, en þetta eru tíu tillögur sem við vorum sammála að myndu efla nýsköpunarumhverfið á Íslandi. Við ákváðum að leggja fram fimm tillögur í formi áskorana til stjórnvalda um það sem mætti betur fara og fimm tillögur þar sem við erum að líta inn á við og reynum að svara því hvað viðskiptalífið sjálft geti lagt af mörkum í þessum málum."

Sigríður segir að í skýrslunni megi finna margar spennandi tillögur og megi þar meðal annars nefna hugmynd um stofnun nýs félagaforms sem ætlað væri frumkvöðlum. „Auk þess leggjum við til að fyrirtækjum verði gert auðveldara við að ráða inn erlenda sérfræðinga, og að stjórnvöld skapi ramma utan um samstarf milli opinberra aðila og einkaaðila til þess að laða erlenda framtaksfjárfesta til Íslands," segir Sigríður.

„Við höfum einnig mikinn áhuga á að hafa jákvæð áhrif á staðalímynd frumkvöðla og sýna þann fjölbreytileika sem er til staðar innan hópsins sem er í frumkvöðlastarfi. Við viljum auk þess gera mistökum hátt undir höfði þar sem það er mikilvægur hluti af frumkvöðlastarfi að gera mistök og læra af þeim. Þessi útgáfa á skýrslunni er í raun upphafspunkturinn og er til þess fallin að koma umræðunni af stað, en skýrslunni verður svo að sjálfsögðu fylgt eftir í kjölfarið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .