Það eru erfiðir tímar framundan hjá gríska forsætisráðherranum Alexis Tsipras sem þarf að sannfæra ríkisstjórnina um að samþykkja neyðarlánið frá leiðtogum evrusvæðisins.

Fyrir lok morgundagsins þarf að samþykkja fjögur lög í gríska ríkinu meðal annars lög sem snúa að eftirlaunum og virðisaukaskatti. Einnig þarf að hækka skatta og frelsa markaðinn.

Varnarmálaráðherra Grikklands Panos Kammenos hefur nú þegar sagt að hann muni ekki samþykkja samning Grikkja við evrópsku lánardrottnana.

Ef ekki næst að samþykkja samninginn er hætta á falli grísku bankanna og að Grikklandi verði neytt til að yfirgefa evruna. Grikkir misstu af afborgun upp á 456 milljónir evra til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á mánudaginn og skulda honum nú tvo milljarða evra.

Leiðogar evruríkjanna samþykktu í gær að veita Grikkjum 86 milljarða evra neyðarlán yfir næstu þrjú árin. Ástandið í Grikklandi er enn mjög slæmt en bankar hafa verið lokaðir frá 29. júní síðastliðnum.