Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands, segir Alþýðusamband Íslands gera kerfisbundið villur í greiningum sínum og að fullyrðingar ASÍ séu óverðskuldaðar.

Óverðskuldaðar fullyrðingar ASÍ

Þið hafið nokkrum sinnum gagnrýnt verðlagskannanir ASÍ. Eruð þið oft ósammála þeim?

„Við höfum gagnrýnt ASÍ því okkur sýnist sem tilgangurinn helgi meðalið hjá þeim. Þau gera kerfisbundið villur í greiningum sínum sem leiða alltaf til þess að þau ofáætla hversu mikið verð ætti að lækka og segja í kjölfarið að álagning verslana hafi aukist. Þetta eru óverðskuldaðar fullyrðingar hjá þeim og við spyrjum okkur hvert markmið ASÍ er með þessum málflutningi. Með því að grafa undan þeim mikla árangri sem lækkun neysluskatta hefur skilað er ASÍ fyrst og fremst að draga úr vilja stjórnmálamanna til að bæta frekar kjör þeirra eigin skjólstæðinga, sem eru launafólk á Íslandi, þannig við skiljum ekki á hvaða vegferð ASÍ er með þessum vinnubrögðum.“

Vita þau af því að útreikningarnir eru rangir?

„Við höfum sex sinnum sent þeim leið- réttingar og fengum loksins svar í síð- ustu viku frá forseta ASÍ þar sem hann bað þingmenn að líta til þess hvaða hvatir liggja að baki okkar málflutningi í stað þess að líta á þau málefnalegu rök sem við höfum sett fram. Þetta finnst okkur vera merki um að hann hafi ekki rökin með sér í þessu máli. Neytendaaðhald varðandi verðlagningu er tvímælalaust af hinu góða, það eykur samkeppni og gagnsæi fyrir alla. En það verður þá að gera það með hlutlægum og sanngjörnum hætti því ef það er ekki gert rýrir það traust og rekur óverðskuldaðan fleyg á milli neytenda og verslunarfólks og grefur undan viðskiptum, þannig að allir eru verr settir fyrir vikið.“

Vegna smæðar Íslands kunna margir markaðir að vera fákeppnismarkaðir, en þykir þér verðlag á Íslandi í heildina vera eðlilegt?

„Eftir að vörugjöld voru afnumin, og nú verða tollar afnumdir í heild sinni af öllu nema matvöru um áramótin, verð- ur innlend verslun orðin samkeppnishæfari en nokkru sinni fyrr. Áður voru meiri háttar skattar á raftæki og heimilistæki og við höfum séð þessa vöruflokka lækka verulega í verði eftir að þeir voru afnumdir. Við spáum því að þessi þróun haldi áfram eftir áramót þegar tollar verða afnumdir af fjölmörgum vörutegundum til viðbótar.

Alþjóðleg samkeppni í smásölu er líka að aukast, við getum pantað sífellt meira af þessum vörum á netinu og þurfum ekki að greiða neitt nema virðisaukaskatt við innflutning eftir næstu áramót. Verslanir átta sig á því að þær eru í alþjóðlegri samkeppni, fatabúðir þekkja það til dæmis vel að ef þær leggja of mikið á vörurnar sínar munu neytendur einfaldlega kaupa þær erlendis eða fá vini eða fjölskyldumeðlimi til að kaupa þær næst þegar þeir ferðast til útlanda. Að okkar mati eru skrefin sem tekin voru með afnámi vörugjalda og tolla því risastórt framfaraskref fyrir neytendur.“

Nú eru stjórnarmyndunarviðræður í fullum gangi í kjölfar kosninga. Hver eru helstu verkefni næstu ríkisstjórnar að ykkar mati?

„Það fyrsta sem kemur upp í hugann er vinnumarkaðurinn. Núna er SALEK samkomulagið svokallaða í uppnámi því ef lífeyrisréttindi verða ekki jöfnuð fyrir áramót er það í lausu lofti og við gætum séð nýtt höfrungahlaup á vinnumarkaði. Eins og við þekkjum úr sögunni er hætt við að það endi með nýrri kollsteypu, þannig að mest aðkallandi verkefni stjórnvalda er að koma böndum á vinnumarkaðinn. Það geta þau gert með því að samþykkja þessi lög um jöfnun lífeyrisréttinda og einnig með því að vinda ofan af nýlegum ákvörðunum kjararáðs, sem eru ekki í takt við þetta samkomulag. Þetta er það mikil hækkun á þessu SALEK-tímabili að hún er úr takti við það sem er að gerast annars staðar og jafnvel þó litið sé aftur til lengri tíma er þetta meiri hækkun en hefur verið á bæði almennum og opinberum markaði. Við teljum að þessar ákvarðanir muni stuðla að upplausn á vinnumarkaði standi þær óbreyttar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .