Bankasýsla ríkisins, sem fer með um 72% eignarhlut ríkisins í eigin fé bankanna, hefur bent á að afkoma bankanna að frátöldum óreglulegum liðum mæti tæplega arðsemiskröfu ríkisins.

Mikið eigið fé, hár fjármögnunarkostnaður, hækkandi launakostnaður, eftirlit, sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki og aðrar álögur gera bönkunum erfitt að ná viðunandi arðsemi með reglulegri starfsemi til að standa undir ávöxtunarkröfu eigenda bankanna og há marka söluvirði bankanna þegar þar að kemur.

Þróunin hefur réttlætt hagræðingaraðgerðir bankanna á borð við stafræna þróun, aukin gjöld og niðurskurð í mannafla, en ein stærsta áskorun bankanna til næstu ára er að ná fram auknu hagræði í fjármögnun, launakostnaði og upplýsingatækni.

Bankaskatturinn bítur í

Rekstrargjöld bankanna fyrstu níu mánuði ársins námu tæpum 58 milljörðum en voru 59,4 milljarðar í fyrra. Hæstur var rekstrarkostnaðurinn hjá Íslandsbanka eða 22,7 milljarðar. Laun og tengd gjöld voru 33,4 milljarðar og hækka um 8%, einkum vegna kjarasamninga.

Alls greiddu bankarnir 14,5 milljarða í tekjuskatt borið saman við 15 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins 2015. Bankaskatturinn eða sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, sem upphaflega var hugsaður sem tímabundin ráð­ stöfun vegna Leiðréttingarinnar, nam 6,6 milljörðum, eða um 9% af vaxtamuninum. Engar fyrirsjáanlegar breytingar eru á þeim skatti, en skatturinn gerir það að verkum að íslensku bankarnir sitja ekki við sama borð og lífeyrissjóðirnir og erlendir bankar í lánveitingum. Einnig kemur skatturinn til með að hafa áhrif á söluverð bankanna fram á veginn.

Þroskun með stafrænni tækni

Ef teknir eru saman þeir 660 milljarðar í eigið fé sem bundið er í bönkunum, hár kostnaður og bankaskatturinn, þá er ljóst að það verður áskorun til næstu ára að ná ásættanlegri arðsemi eiginfjár samhliða því að það dragi úr vægi einskiptisliða í rekstrarniðurstöðu bankanna.

Þetta hafa bankarnir vitað í þó nokkurn tíma og hafa þeir ráðist í hagræðingaraðgerðir með stafrænni þróun, hærri gjöldum og niðurskurði á mannafla í ljósi þessa.

„Hátt eigið fé og sérstakir íslenskir skattar á fjármálastofnanir gera það að verkum að það verður stöð­ ugt meiri áskorun að ná fram ásættanlegri arðsemi á eigið fé. Þetta er samt ekki flókið, við þurfum að lækka kostnað og auka tekjur,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.

„Eitt af stóru verkefnunum er að ná fram auknu hagræði og þar erum við að vinna á mörgum sviðum. Þau snúa helst að fjármögnun, launakostnaði, upplýsingatækni og húsnæðismálum. Við erum að auka vægi stafrænnar þjónustu og erum að vinna í nokkrum spennandi verkefnum á þeim vettvangi. Álögur eru miklar og fela í sér áskorun fyrir okkar starfsemi fram á veg. Það felst einnig umtalsverð áskorun í því umhverfi lagabreytinga og eftirlitsstofnanna sem við störfum innan. Slíkt umhverfi kallar á verulegan mannafla af okkar hálfu og kostnað.“

Íslensk fjármálafyrirtæki töpuðu nokkrum árum í tækniþróun vegna hrunsins og uppgjörs við það, en stafrænar lausnir bankanna miða að því að draga úr kostnaði og einfalda bankaviðskipti.

„Við viljum að helstu aðgerðir sé hægt að gera í símanum og netbankanum og í stærri ákvörðunum sé hægt að leita sérfræðiþekkingar í útibúum,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, segir einnig mikilvægt að íslensk stjórnvöld og fjármálakerfið stuðli að aukinni skilvirkni og samkeppnishæfni í fjármálaþjónustu.

„Skattarnir sem bankarnir búa við eru gríðarlega háir miðað við það sem þekkist erlendis. Það er verið að skattleggja bankana fyrir velgengni. Það mætti síðan fara meiri vinna í það að byggja upp sameiginlega innviði fjármálakerfisins og nýta þannig smæðina okkur til hagsbóta. Við þurfum að vera í samkeppni en það má ekki vera til þess að náum ekki að vinna saman í grunnþáttum fjármálaþjónustu,“ segir Steinþór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .