*

fimmtudagur, 18. apríl 2019
Innlent 22. janúar 2018 13:20

Erfitt að ná viðunandi afkomu

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, ræddi veiðigjöld og nýsköpun í sjávarútvegi í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Hvernig sérðu stöðuna í greininni fyrir þér eftir ár eða fimm ár eða tíu ár? „Ef það verður ekki breyting á veiðigjöldunum þá falla menn bara hverjir á fætur öðrum. Þarna væri kominn alvöru hvati fyrir menn til að hlaupa út úr greininni. Það er ekki hægt í bolfiski í dag, sama hvað þú verður stór, að ná viðunandi afkomu með þessi gjöld. Það er ekki hægt að reka bolfiskfyrirtæki og nýta fjármunina til nýbyggingar og endurfjárfestingar. Við stöndum núna frammi fyrir sennilega stærstu áskorun í fjárfestingu í landvinnslu sem við höfum nokkurn tíma staðið frammi fyrir. Það er öll sjálfvirknivæðingin, sem býður upp á að taka alla pökkun heim og pakka í endanlega neytendapakkningar,“ segir Pétur Pálsson.

Sjálfvirknivæðingin gæti þýtt töluverða fækkun starfsfólks í landvinnslu eins og hún þekkist í dag. Hins vegar er útlit fyrir að önnur störf verði til samhliða þessari þróun. „Það hefur til dæmis snarfjölgað hjá Marel. Sjálfvirknivæðingin og gervigreindin eru á hraðri leið inn hjá okkur en þú getur ekki bæði keypt nýjan búnað og greitt þessi gjöld,“ segir Pétur.

„Eitt sem nýju vélarnar okkar gera er að skera fisk eftir þyngd, lengd, þykkt og fleiru. Þetta er það allra nýjasta í fiskvinnslu. Framleiðslustjórinn situr svo uppi í tölvu og stýrir nákvæmlega hvað fiskbitarnir eiga að vera stórir. En þessar vélar eru mikil fjárfesting,“ segir Pétur. „Þegar við verðum búin að endurnýja bátana með nýjum tækjum og endurnýja húsin eftir svona fimm ár, þá verður bókfært virði stáls og steypu það sama og veltan. En til að geta rekið sjávarútveg eins og við viljum reka hann þá mun enginn í bolfiskinum einum og sér standa í því. Það þarf annaðhvort að greiða það með hagnaði af annarri vinnslu eða nýju hlutafé, sem enginn setur inn í óbreyttan rekstur,“ segir Pétur.

„Hvernig eiga fyrirtæki að geta lifað ef þau geta ekki fjárfest? Þessi fyrirtæki lifa ekki af þessar hækkanir. Ef við ætlum að búa til svipaðan skattstofn fyrir ríkið í bolfiski og er af uppsjávarfyrirtækjum, og viljum líka hafa einhverja dreifingu, þá verður að leyfa að hagræða og þjappa saman og halda fyrirtækjunum dreifðum um landið, án þess að gjaldtakan sé þannig að allir gefist upp. Þessum fyrirtækjum mun fækka, jafnvel þótt það væru engin veiðigjöld,“ segir Pétur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim