Erla Ósk Ásgeirsdóttir hefur verið kjörinn stjórnarformaður Félagsstofnunar stúdenta, en tekur hún við af Davíð Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Dohop, sem stýrt hefur stjórninni undanfarin átta ár.

Hýsir 1.800 stúdenta

„FS er sjálfseignarstofnun sem á og rekur 19 Stúdentagarða sem hýsa um 1800 stúdenta. Stofnunin rekur jafnframt Bóksölu stúdenta, Kaffistofur stúdenta, þrjá Leikskóla stúdenta, Stúdentamiðlun, Stúdentakjallarann, Hámu, Hámu heimshorn, Bókakaffi stúdenta og Kaupfélag stúdenta,“ segir í fréttatilkynningu frá stofnuninni.

„Hjá stofnuninni starfa um 170 starfsmenn að jafnaði. Erla Ósk er önnur konan til að gegna stöðu stjórnarformanns í þau tæpu 40 ár sem stofnunin hefur starfað, en Kristín Ástgeirsdóttir gegndi formennsku frá 1993-1994.“

Fjármögnun fyrir 5,3 milljarða

Erla hefur setið í stjórn FS sem fulltrúi stúdentaráðs en var kjörinn fulltrúi Vöku í Stúdentaráði á námsárum sínum í HÍ ásamt því að hafa gengt starfi framkvæmdastjóra þess 2004-2005.

„Það eru bjartir tímar framundan fyrir stúdenta en fyrr í mánuðinum undirrituðum við samkomulag við Íbúðalánasjóð um fjármögnun upp á 5,3 milljarða af 6,3 milljarða framkvæmd,“ segir Erla Ósk í fréttatilkynningunni.

„Verkefnið snýst um að reisa 400 nýjar íbúðir fyrir stúdenta á næstu þremur árum en þetta eru umfangsmestu framkvæmdir í sögu Félagsstofnunar stúdenta.“

Forstöðumaður hjá Icelandair hótelum

Erla Ósk er með MPA og B.S. gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, en hún hefur einnig setið námskeið um ábyrgð og árangur stjórnmálamanna hjá Háskólanum í Reykjavík.

Starfar hún nú sem forstöðumaður starfsmanna- og gæðasviðs Icelandair hótela og situr hún í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins.