Markaðshlutdeild erlendra vátryggingafélaga á líftryggingamarkaði var samtals 67,5% árið 2010, samkvæmt samantekt Fjármálaeftirlitsins( FME) fyrir árin 2008 til 2010. Árið 2008 var hlutdeild þeirra hérlendis 55,5% og 66,9% árið 2009.

Á skaðatryggingamarkaði er hlutdeild þeirra hins vegar lítil, eða 5,2% árið 2010. Félögin sem um ræðir hafa höfuðstöðvar sínar á Evrópska efnahagssvæðinu. Í tilkynningu FME er tekið fram að hlutdeild getur tekið breytingum í takt við sveiflur á gengi krónunnar en upplýsingarnar byggja á gögnum eftirlitsaðila viðkomandi ríkja.