Heildarskuldbindingar umfram eignir Íslendinga hafa lækkað síðustu ár, en milli áranna 2015 og 2016 lækkaði hrein neikvæð fjáreign innlendra aðila úr 839,1 milljarði króna í 736,6 milljarða.

Heildarskuldbindingar í innlendra aðila lækkuðu um 3,4% og námu 28.491 milljarði króna í árslok 2016, en á sama tíma lækkuðu fjáreignir þeirra um 3,1% milli ára en þær stóðu í 27.755 milljörðum króna.

Eignirnar meiri en skuldbindingarnar

Ef horft er á skuldbindingarnar og fjáreignirnar sem hlutfall af landsframleiðslu, nema þær fyrrnefndu 1.163% hennar, meðan eignirnar nema 1.133% landsframleiðslunnar að því er Hagstofan greinir frá.

Þegar skipting eigna og skuldbindinga eftir geirum efnahagskerfisins sést að á árunum 2015 og 2016 hækkuðu fjáreignir fyrirtækja í landinu, annarra en fjármálafyrirtækja, um 1,9% meðan skuldbindingarnar hækkuðu um 2,2%.

Á sama tíma minnkuðu eignir fjármálafyrirtækja um 9,3% meðan skuldbindingar þeirra minnkuðu um 7,1% á milli ára, en þetta skýrist að hluta til vegna uppgjöra slitabúa föllnu bankanna.

Skuldir hins opinbera 92% af VLF

Í lok ársins 2016 stóðu eignir hins opinbera í 1.319 milljörðum króna, eða 54% af vergri landsframleiðslu, meðan skuldirnar stóðu í 2.261 milljarði, eða 92% af vergri landsframleiðslu. Á sama tíma stóðu fjáreignir heimilanna í 5.631 milljarði og skuldirnar í 1.930 milljörðum króna, meðan heildarfjáreignir þeirra jukust um 8,3% en skuldirnar jukust um 2,3%.

Erlendar fjáreignir lækkuðu um 22% og stóðu í 4.543 milljörðum króna eða 186% af vergri landsframleiðslu, en erlendar skuldbindingar stóðu í 3.798 milljörðum eða 155% af vergri landsframleiðslu. Fjáreignir erlendis lækkuðu um 22% og skuldbindingar þeirra um tæp 24% milli áranna 2015 og 2016.