Hans-Ole Jochumsen, framkvæmdastjóri hjá Nasdaq kauphallasamstæðunni og fyrrverandi stjórnarformaður íslensku kauphallarinnar, heimsótti Ísland í vikunni, en hann á að baki nærri tveggja áratuga starfsferil hjá Nasdaq. Hlutverk hans í framkvæmdastjórninni er að vinna náið með stjórnendateymum aðildarkauphallanna í að finna ný tækifæri og styrkja viðskiptasambönd. Hann segir íslenskan hlutabréfamarkað hafa náð sér ágætlega eftir hrun þó það hafi tekið talsverðan tíma.

„Þetta hefði örugglega gerst hraðar hefði ekki verið fyrir gjaldeyrishöftin. Það má enn bæta ákveðna þætti, meðal annars má fá meira erlent fjármagn til landsins. Ástandið núna er þannig að þeir alþjóðlegu fjárfestar sem eru að íhuga að snúa aftur til Íslands vilja vita að hér sé kominn stöðugleiki og þeir geti verið hér til lengri tíma,“ segir Hans-Ole.

Evrópa of háð bankafjármögnun

Hans-Ole segir mikilvægt að Íslendingar móti sér stefnu varð- andi fjármálamarkaðinn. Ekki sé einungis mikilvægt að fá hingað erlenda fjárfesta, heldur þurfi einnig að auka fjölbreytileika meðal íslenskra fjárfesta.

„Hér eru annars vegar stofnanafjárfestar, sem eru að mestu leyti lífeyrissjóðir, og síðan einkafjárfestar. Ég held það sé mikilvægt að fá fleiri Íslendinga til að fjárfesta beint á hlutabréfamarkaði, það eykur fjölbreytileika markað- arins sem er mjög jákvætt,“ segir Hans-Ole. Hann bendir á Svíþjóð sem dæmi um land sem hefur komið á fót afar öflugum hlutabréfamarkaði. Bæði sé flóra fjárfesta þar í landi fjölbreyttari og löggjöf ýti undir fjárfestingar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .