Farþegum í júní fjölgar nú um 5,4% milli ára sem er mun minni fjölgun en verið hefur síðustu ár. Fjölgunin í júní hefur verið að jafnaði 21,1% milli ára síðastliðin fimm ár mest frá 2015 til 2016 eða 35,8%. Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu .

Brottfarir Bandaríkjamanna voru 39,7% af heild en þeir voru 29,1% fleiri í ár en á síðasta ári. Næstfjölmennastir voru Þjóðverjar eða 7,0% af heild í ár en þeir voru 24,3% færri en árið 2017. Þar á eftir komu Bretar eða 5,5% af heild en þeim fækkaði um 7,4% milli ára.

Sé tímabilið frá áramótum skoðað (janúar-júní) í samanburði við sama tímabil nokkur ár aftur í tímann má glögglega sjá að dregið hefur verulega úr þeirri fjölgun sem verið hefur síðustu ár. Á myndinni hér til hliðar má sjá samanburð fjögur ár aftur í tímann, sem sýnir þetta vel. Frá áramótum hefur verið 5,5% fjölgun en á sama tíma fyrir ári var hún 39,1%. Næstu tvö tímabil þar á undan hafði fjölgun á milli ára verið á bilinu 29-35% milli ára.