*

miðvikudagur, 16. janúar 2019
Innlent 15. mars 2017 09:29

Erna ráðin framkvæmdastjóri BHM

Stjórn Bandalags háskólamanna (BHM) hefur ráðið Ernu Guðmundsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra bandalagsins.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Stjórn Bandalags háskólamanna (BHM) hefur ráðið Ernu Guðmundsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra bandalagsins. Erna er fædd árið 1970 og hefur verið lögmaður BHM í um áratug eða frá árinu 2007. Fyrstu sjö árin var hún jafnframt lögmaður Kennarasambands Íslands eða allt til ársins 2014 þegar hún var ráðin í fullt starf hjá BHM. Á árunum 1999 til 2007 var hún lögmaður BSRB og var einnig um skeið forstöðumaður starfsmannasviðs Tollstjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BHM.

Erna lauk embættisprófi frá Lagadeild Háskóla Íslands árið 1999 og öðlaðist réttindi til að vera héraðsdómslögmaður árið 2001. Hún hefur jafnframt lokið BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Erna hefur sitið í fjölmörgum nefndum og vinnuhópum á vegum BHM, meðal annars í samninganefndum vegna kjaraviðræðna.

Þá hefur hún setið í stjórn Vinnueftirlitsins frá árinu 2015, samráðsnefnd velferðarráðuneytisins vegna EES-samningsins frá árinu 1999 og sat í ráðgjafarnefnd EFTA á árunum 1999–2006.

Erna er gift Friðþjófi I. Jóhannessyni húsasmíðameistara og eiga þau fjóra syni. Hún hefur störf sem framkvæmdastjóri BHM næstkomandi föstudag, 17. mars, að því er kemur fram í tilkynningunni frá BHM.

„Það er mikið ánægjuefni að Erna hafi þegið boð stjórnar BHM um að taka að sér starf framkvæmdastjóra bandalagsins. Hún á að baki farsælan feril sem lögmaður bandalagsins í tæpan áratug og hefur mjög yfirgripsmikla þekkingu á málefnum vinnumarkaðar. Ég er sannfærð um að ráðning hennar í starf framkvæmdastjóra mun reynast heillaspor fyrir bandalagið,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.