Flugfélagið Ernir mun í dag hefja beint áætlunarflug milli Reykjavíkur og Húsavíkur. Þetta er í fyrsta sinn í tæp 12 ár sem flogið er beint áætlunarflug til Húsavíkur.

Flogið verður fjóra daga vikunnar, alls sjö ferðir, út september en að sögn Ásgeirs Þorsteinssonar, sölu- og markaðsstjóra Ernis, standa vonir til þess að hægt verði að fljúga til Húsavíkur allan ársins hring.

„Móttökurnar við þessu flugi hafa verið mjög góðar,“ sagði Ásgeir í samtali við Viðskiptablaðið í sérblaði um flug sem kom út í lok mars.

„Húsavík, Mývatnssveit og nærliggjandi svæði bjóða upp á mikla möguleika allt árið þannig að ef vel tekst til getum við haldið þessu flugi áfram.“

Flogið verður á 19 sæta Jetstream 32 skrúfuvélum. Húsavík verður þannig fimmti áfangastaður Ernis en félagið flýgur nú þegar til Vestmannaeyja 14 sinnum í viku, Hafnar átta sinnum í viku, Bíldudals sex sinnum í viku og til Gjögurs einu sinni í viku.