*

mánudagur, 23. október 2017
Innlent 30. júlí 2012 15:43

Ernir mun fljúga til Húsavíkur allt árið

Flugfélagið Ernir segir íbúar svæðisins, fyrirtæki og stofnanir hafa sýnt nýrri flugleið til Húsavíkur mikinn áhuga.

Ritstjórn
Hörður Kristjánsson

Flugfélagið Ernir hefur tekið þá ákvörðun að halda flugi til Húsavíkur áfram allt árið um kring. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Erni en áætlunarflug hófst á Húsavík 15. Apríl 2012.

Um var að ræða tilraunaverkefni út september sama ár. Í tilkynningunni kemur fram a þróunin á þessari flugleið hafi hins vegar verið á þá leið að ákvörðun var tekin um að opna fyrir flug allt árið til og frá Húsavík . 

„Viðtökur hafa verið mjög góðar og hafa íbúar svæðisins, fyrirtæki og stofnanir sýnt nýrri flugleið mikinn áhuga og nýta flugið mjög vel. Einnig er mikil aukning ferðamanna til Íslands og má ætla að töluverður fjöldi heimsæki Húsavík og Mývatnssvæðið með þessari nýju tengingu beint á Húsavíkurflugvöll,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að fyrst um sinn verða flogin sjö flug fjóra daga vikunnar líkt og verið hefur síðustu mánuði. Einnig verður skoðaður sá möguleiki að bæta við flugdögum og auka tíðnina ef eftirspurn eykst mikið.