Hörður Guðmundsson forstjóri Ernis segir að ef einn áfangastaður falli niður þá hafi það djúpstæð áhrif á reksturinn. Nú ber svo við að Isavia ræður ekki við að halda Húsavíkurflugvelli opnum í vetur nema yfirvöld útvegi samtals 14 milljónir króna yfir veturinn. Það er ekki há fjárhæð samanborið við margt annað í umræðunni og segir Hörður að falli flug til Húsavíkur niður neyðist hann til að segja upp tuttugu af sextíu starfsmönnum sínum

„Á undanförnum árum hefur kostnaður við flugið vaxið gífurlega, sérstaklega hafa álögur hins opinbera hækkað mikið,“ segir Hörður. Þegar Isavia var gert að opinberu hlutafélagi lækkuðu framlög til stofnunarinnar á fjárlögum. Það varð til þess að félagið fór út á markað í leita að tekjum en þeir hafa ekki í marga vasa að sækja," segir Hörður.

Hörður segir hið opinbera leggja um 120 milljónir króna til flugsamgangna og bendir á að í gegnum skatta og gjöld greiði Flugfélagið Ernir á fjórða hundrað milljónir króna til baka til hins opinbera ár hvert. Hann segir enga eina flugleið geta staðið undir flugrekstrinum einum og sér. Hann hefur rætt við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra vegna málsins en telur pólitískan vilja skorta til að finna fjármagn svo halda megi uppi flugsamgöngum á borð við þær sem Flugfélagið Ernir sinnir.