Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir niðurstöður nýrrar könnunar, sem bendir til að flokkur hans muni missa fjóra þingmenn, sýni að líkur sé á að hér verði mynduð vinstristjórn að loknum kosningunum á morgun.

„Við erum tryggingin gegn vinstristjórn,“ segir Bjarni sem segir Sjálfstæðisflokkinn kjölfestuna gegn vinstriöflunum í landinu í samtali við Morgunblaðið. „Það er enn raunveruleg hætta á að því að hér myndist vinstristjórn ef við náum ekki að bæta við okkur á endasprettinum.“

Bjarni segir að flokkurinn sé með meðbyr á lokasprettinum. „[V]ið vonumst til þess að hann fleyti okkur lengra og það má sjá af þessum tölum að það getur verið mjög snúið spil að raða saman ríkisstjórn eftir kosningar,“ segir Bjarni.

„Til að Sjálfstæðisflokkurinn verði sterka kjölfestan og mótfestan við vinstriöflin í landinu þurfum við að skila meiri stuðningi á síðustu dögunum.“