Róbótar gætu fengið lögvarin réttindi og álitnir rafrænir einstaklingar, samkvæmt uppkasti að skýrslu Evrópuþingsins. Samkvæmt skýrslunni ætti að skylda fyrirtæki til að borga skatta og gjöld af róbótum.

Ný iðnbylting

„Mannkynið stendur á brún tímabils þar sem sífellt fullkomnari róbótar, vélmenni og aðrar gerðir vélrænna vitsmuna gætu leyst úr læðingi nýja iðnbyltingu, sem er líklegt til að láta engan hluta samfélagsins óhreyfðan,“ segir í skýrslunni sem jafnframt segir það mikilvægt fyrir þingið að íhuga afleiðingarnar af þessu.

Skýrslan nefnir að sala á róbótum hafi aukist mikið á síðustu árum, sem og árlegar umsóknir um einkaleyfi á róbótatækni hafi þrefaldast á síðasta áratug.

Ógn fyrir viðgang tegundarinnar

Skýrslan nefnir jafnframt áhyggjur af því að aukin geta vélrænnar gáfu geti skapað mannkyninu ógn og takmarkað möguleika þess til að hafa stjórn á eigin örlögum og jafnvel viðgangi tegundarinnar.

En þrátt fyrir þessa róttæku framtíðarsýn kallar skýrslan á að farið verði varlega í allri löggjöf og hún gerð smátt og smátt og sé með hagsýni að leiðarljósi.