Evrópusambandsríkin ættu að samræma skattamál sín til þess að sporna við samningum sem ríki eins og Lúxemborg hafa notað til að laða að sér ríkt fólk og fyrirtæki. Þetta segir forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker.

Hann neitar því að hann sé hluti af þessu vandamáli þar sem hann hafi verið forsætisráðherra Lúxemborgar stærstan hluta síðustu tveggja áratuga.

Juncker segir að ef ríki Evrópusambandsins séu algjörlega skipt á milli kerfa þar sem skattur sé annars vegar hár og hins vegar lágur geti það leitt til brota á siðferðislegum stöðlum.

Þýsk stjórnvöld hafa tekið undir þessi ummæli Junckers og lýst yfir stuðningi við hann. Þau hyggjast leggja til að ríki ESB viðhafi gagnsæi og deili upplýsingum um samninga sem skattayfirvöld gera við fyrirtæki. "Við styðjum samkeppni í skattamálum, en samkeppnin verður að vera sanngjörn og gegnsæ," segir talsmaður þýska fjármálaráðuneytisins við AP fréttastofuna.

Stjórnvöld í Lúxemborg hafa hafnað því að hafa brotið lög með því að gera samninga við stórfyrirtæki eins og Pepsi og IKEA um greiðslu  mjög lágra skatta. Önnur ríki hafa hins vegar gagnrýnt smáríkið fyrir skattasamninga sína.