Bretar ganga að kjörborðinu á morgun og kjósa um það hvort þeir vilji vera áfram í Evrópusambandinu eða ekki og útlitið er mjög tvísýnt.

Bjarni kvaðst ekki vilja gefa Bretum nein ráð um hvernig þeir réðu ráðum sínum hvað aðild að Evrópusambandið áhrærði. Það ættu þeir að gera upp við sig án utanaðkomandi áhrifa. Hann sagði að það sem sér væri efst í huga, hvað þetta
varðaði, væri að Ísland myndi viðhalda sínu nána viðskiptasambandi við Bretland. „Ég hef enga ástæðu til þess að óttast neitt um það, hvernig sem kosningarnar fara, ég er viss um að fríverslun milli landanna mun halda áfram óskert.“

Bjarni vildi engu svara til um hvort Ísland myndi hafa frumkvæði að viðskiptasamningi við Breta ef til kæmi, sagði ótímabært að ræða það. En EFTA, myndi hann hvetja Breta til þess að ganga aftur í EFTA ef þeir yfirgæfu ESB? „Ég vil ekki taka þátt í umræðunni um hvað Bretar eigi að gera,“ svaraði Bjarni.

„En hitt sé ég í hendi mér að sama hvernig þessar kosningar fara, þá þarf Evrópusambandið að horfa í spegil og spyrja sjálft sig nokkurra vel valinna spurninga. Um hvað snýst þetta allt, frið, fríverslun eða hvað? Og hversu langt á að ganga? Innan hinna ýmsu landa Evrópusambandsins gætir nú æ meiri efasemda um Evrópusamrunann og þegar jafnvel Juncker segir að sennilegast hlutist sambandið of mikið um daglegt líf borgaranna, þá hljóta menn að hugsa sinn gang. Það blasir við að í Evrópu eru nú þegar ýmsar ólíkar leiðir í Evrópusamstarfinu, bæði innan ESB og utan, Bretar munu finna sína leið í því.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .