Vogunarsjóðurinn Eton Park Capital Management var sá sjóður sem náði bestu ávöxtuninni á kröfur sínar á föllnu íslensku bankana eftir hrun þeirra haustið 2008. Eton Park var meðal stærri kröfuhafa bankanna í upphafi kröfuferlisins áramótin 2009-10 og átti kröfur á Kaupþing og Glitni upp á 160 milljarða króna.

Fram kom á vef Viðskiptablaðsins í gær að bandaríski vogunarsjóðurinn Baupost hefði verið stærsti kröfuhafi bankanna og jafnframt hagnast um tæpa 100 milljarða króna á kröfum sínum. Baupost náði um 51,3% árlegri ávöxtun á kröfur sínar.

Náði 291% ávöxtun

Eton Park var ekki nærri jafn stór kröfuhafi og Baupost en náði hins vegar 64,5% árlegri ávöxtun á kröfur sínar. Alls var ávöxtun sjóðsins um 291%, en hann breytti 8,8 milljarða króna fjárfestingu í 34,5 milljarða. Sjóðurinn eignaðist kröfurnar að öllum líkindum á skuldatryggingauppboði í Lundúnum í nóvember 2008 með miklum afföllum og árið 2012 hafði hann selt um helming krafna sinna á Kaupþing og Glitni en bætt við sig kröfum á Landsbankann fyrir 41 milljarð.

Fyrri hluta árs 2013 hafði sjóðurinn selt nær allar kröfur sínar og í ársbyrjun 2014 var hann nær algerlega farinn úr stöðu sinni. Með því að selja kröfur sínar tiltölulega snemma fremur en að halda þeim fram að nauðasamningum í árslok 2015 tókst Eton Park að skila umtalsverðri ávöxtun. Hann hagnaðist sömuleiðis verulega á því að kaupa kröfur á Landsbankann í gegnum hollenska skúffufélagið Potter Netherlands Cooperatief og selja þær skömmu síðar á allt að tvöfalt hærra verði.

Líkt og áður kom fram var árleg ávöxtun sjóðsins um 64,5% og m.v. 15% ávöxtunarkröfu nam jákvætt núvirði fjárfestingarinnar 18,3 milljörðum króna. Ef ekki er tekið tillit til tímavirðis peninga var hreinn krónuhagnaður sjóðsins um 34,5 ma.kr. af viðskiptum sínum. Enginn sjóður náði betri ávöxtun.

Stofnandinn var stórstjarna

Forstjóri og stofnandi Eton Park Capital Management, Eric Mindich, skaust upp á stjörnuhimininn í fjármálaheiminum þegar hann varð sá yngsti í sögunni til að vera gerður að meðeiganda hjá fjárfestingabankanum Goldman Sachs. Mindich var einungis 27 ára gamall þegar hann afrekaði það árið 1994. Tíu árum síðar stofnaði hann Eton Park og fjárfestar flykktust að honum. Samningar voru þannig að virkilega erfitt var fyrir fjárfesta að taka peninga sína út úr sjóðnum, en þegar halla tók undan fæti upp úr 2012 fóru menn að missa trúna á Mindich og Eton Park vegna slæmrar frammistöðu. Upp á sitt besta stýrði sjóðurinn um 14 milljörðum Bandaríkjadala en stýrir um níu milljörðum í dag.

Ítarlega úttekt á vogunarsjóðum sem keyptu kröfur á föllnu íslensku bankana má finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .