Aðsóknartekjur kvikmyndahúsa árið 2015 voru um 1.552 milljónir króna, en það er 3,4% meira en árið áður. Aðsókn í kvikmyndahús á árinu voru 1.382.494 manns, en það er aukning um 1,7% frá fyrra ári.

Tvær kvikmyndir sem voru frumsýndar á árinu raða sér meðal 20 tekjuhæstu kvikmynda á Íslandi, en það eru Everest og Star Wars: The Force Awakens. Everest var tekjuhæsta kvikmynd ársins með rúmar 89 milljónir í tekjur.

Star Wars var næst tekjuhæsta kvikmynd ársins þrátt fyrir að hún hafi einungis verið frumsýnd þann 18. desember sl. Tekjur myndarinnar námu 80 milljónum króna, en hún er ennþá í sýningu og líklegt að tekjur hennar muni aukast mikið. Fyrsti sýningardagur Star Wars var sá tekjuhæsti í íslenskri kvikmyndasögu, en hún var sýnt allan sólahringinn.

Tekjuhæsta íslenska kvikmyndin var Hrútar. Hún er ennþá í sýningu, en tekjur af henni námu rúmum 29 milljónum króna á síðasta ári.