Evran lækkaði í dag gagnvart helstu gjaldmiðlum. Gengi evrunnar hefur ekki verið veikara gagnvart Bandaríkjadal í tæp 12 ár og þarf ekki nema 1,07 dal til að kaupa eina evru.

Evrópski seðlabankinn hóf í gær uppkaup á skuldabréfum aðildarríkja evrópskra myntsamstarfsins og fyrirtækjabréf evrulandanna. Markmiðið er að koma í veg fyrir frekari verðhjöðnun og ná verðbólgumarkmiði bankans, sem liggur í kringum 2%.

Aðgerð seðlabankans er ekkert annað en peningaprentun og voru Þjóðverjar mjög andvígir aðgerðinni en Angela Merkel samþykkti hana að lokum.

Seðlabankastjóri þýska seðlabankans áfram andvígur

Í gær gagnrýndi Jens Weidmann bankastjóri þýska seðlabankans aðgerðirnar og sagði ástæðu verðhjöðnunar á evrusvæðinu m.a. olíuverðslækkanir sem væru tímabundnar. Þýski seðlabankinn hefur ítrekað lýst yfir andstöðu við kaup á skuldabréfum evrulandanna á eftirmarkaði.

Álag á ríkisskuldabréf Þýskalands er í sögulegu lágmarki. Álagið á tíu ára skuldabréf er nú 0,23% og neikvætt á bréf með styttri uppgreiðslutíma en átta ár.Í vandræðalöndunum Spáni og Ítalíu er álagið 1,17% og 1,22%.

Mario Draghi bankastjóri Seðlabanka Evrópu sagði í gær að bankinn myndi ekki kaupa skuldabréf gríska ríkisins meðan ekki hefði verið samið að nýju um skuldir ríkisins við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.