„Sagnfræðingar tala nú þegar um hinn týnda áratug evrusvæðisins, og mögulegt er að þeir fari brátt að skrifa einnig um síðasta áratug þess.“

Þetta skrifar bandaríski hagfræðingurinn Joseph E. Stiglitz í nýlegri grein á vef viðskiptatímaritsins Fortune. Stiglitz, sem er hagfræðiprófessor við Columbia-háskóla í New York og Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur um árabil verið hispurslaus í afstöðu sinni til evrunnar sem sameiginlegs gjaldmiðils á evrusvæðinu. Allt frá byrjun evrusamstarfsins hefur Stiglitz, sem aðhyllist ný-keynesíska hagfræði og hefur lýst sér sem „samherja“ marxíska hagfræðingsins Thomas Piketty, gagnrýnt evruna.

Stiglitz hefur lýst evrunni sem „algjörlega misheppnaðri“ tilraun til aukinnar velmegunar í Evrópu og í bókinni The Euro: How a Common Currency Threatens the Future of Europe frá ágúst síðastliðnum færði hann rök fyrir því að evrusamstarfið hefði verið byggt á ótraustum grunni. Þar spáði hann því að án umbóta væri öruggt að samstarfið færi út um þúfur með tímanum. Stiglitz hefur einnig spáð því að Ítalía og ríki í Suður-Evrópu muni ganga úr evrunni á komandi árum.

Nú gengur Stiglitz skrefinu lengra og segir það allt eins líklegt að evran hrynji árið 2017. Hann segir evruna vera undirrót stöðnunar í Evrópu og að evrusamstarfið hafi verið gallað frá upphafi, en samhliða vaxandi efnahagslegum og pólitískum klofningi í álfunni séu stjórnmálaöfl andvíg evrunni að sækja í sig veðrið og jafnvel ná yfirhöndinni. Tækifærin til að skapa hagkvæmara myntsvæði í Evrópu gætu hafa gengið til þurrðar.

Gallar frá fæðingu

Evrópa hefur ekki náð að rétta úr kútnum eftir fjármálakreppuna árið 2008. Hagvöxtur á mann á evrusvæðinu á liðnu ári leitaði í fyrsta skipti í svipað horf og fyrir kreppuna. Vöxtur landsframleiðslu var um 1,6%, sem er tvöfalt meiri vöxtur en meðalhagvöxtur árin 2005 til 2015.

Hagvöxtur á evrusvæðinu hefur nær staðnað og þar fyrir utan er efnahagslegur og pólitískur klofningur milli Evrópuríkja í norðri og suðri. Samstillt peningamálastefna og aukinn agi í ríkisfjármálum átti að leiða til aukinnar samleitni, þ.e. að hagvöxtur landa innan evrusvæðisins myndi vaxa saman og verða áþekkur til lengri tíma litið.

Aukin samleitni einkenndi þróunina meðan svæðið varð ekki fyrir alvarlegum ósamhverfum efnahagsskellum. En raunin hefur verið allt önnur í kjölfar efnahagskreppunnar; hagvöxtur landa innan evrusvæðisins hefur vaxið í sundur.

Efnahagslegur ójöfnuður milli landa hefur meðal annars birst í því, að ráðstöfunartekjur grískra heimila minnkuðu um nær fjórð- ung milli 2008 og 2014, en tekjur þýskra heimila jukust um 15%. Atvinnuleysi í Tékklandi og Þýskalandi er í kringum 4%, á sama

Stiglitz telur efnahagsleg vandamál Evrópusambandsins stafa af hönnunargöllum evrusvæðisins og evrusamstarfsins.

Þegar evran var innleidd sem lögeyrir í ESB-ríkjum árið 2002 var tekin upp fastgengisstefna innan evrusvæðisins. Stiglitz hefur áður sagt að fórnarkostnaðurinn við upptöku evrunnar hafi verið gríðarlegur og í raun banvænn, því þar með gátu veikburða hagkerfi ekki fellt gengið eða beitt peningastefnunni til að mæta niðursveiflu. Evrópskir leiðtogar hafi ranglega talið að gengisáhætta útrýmdi allri áhættu. Innri markaðurinn tryggði einnig að lausafé gæti leitað af efnahagsreikningum banka í veikburða hagkerfi og dregið þannig úr útlánastarfsemi þar, með þeim afleiðingum að staða hagkerfanna veikist enn frekar.

„Evran tók burt tvö mikilvæg hagstjórnartæki fyrir efnahagslega aðlögun – gengi og vexti – án þess að koma með neitt á móti. Það var engin sameiginleg innlánatrygging, engin samræmd leið til að leysa vandamál í bankageiranum, og ekkert sameiginlegt atvinnuleysisbótakerfi,“ segir Stiglitz. Í stað þess að dreifa kostnaði við að rétta úr kútnum jafnt yfir öll hagkerfi evrusvæðisins fellur byrðin á einstök lönd með niðurskurði, svo sem skattahækkunum og launalækkunum. Þetta hefur sést einna best í Grikklandi,“ segir Stiglitz.

Bætir hann við að evrusvæðið hafi grundvallast á óraunhæfum hugmyndum, svo sem að ríkishalli undir 3% af VLF, skuldir undir 60% af VLF og verðbólga undir 2% undir ári myndi tryggja vöxt og stöðugleika. Halli og opinberar skuldir Ítalíu og Spánar í kjölfar efnahagskreppunnar hafi sýnt það svart á hvítu að þessar tölur áttu sér enga stoð í fræðunum eða í raunveruleikanum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .