Illugi Gunnarsson Menntamálaráðherra segir það mikilvægast fyrir Ísland að unnið sé hratt og vel úr þeirri stöðu sem nú er komið upp með tilvonandi úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.

Engar áhyggjur af verri viðskiptakjörum

„Ég hef engar áhyggjur af því að það verði einhvern veginn verri viðskiptakjör við Bretland, Bretar hafa alla hagsmuni af því tryggja sig sem best, að halda góðu viðskiptasambandi, hvort heldur sem við okkur eða einhverja aðra, ég hef engar áhyggjur af því, en því fyrr sem komin er niðurstaða í þau mál, því betra fyrir alla,“ segir Illugi í samtali við Viðskiptablaðið.

„Eitt af því sem Ísland stendur frammi fyrir er að Bretland er eitt okkar helsta viðskiptaland, rúmlega 10% af útflutningnum fer þangað, þannig að það mun skipta máli hvernig að því verður staðið, hvort heldur sem það sé með beinum samningum, eða með EFTA, eða það er að segja í gegnum EES samstarfið, hvernig framtíðarfyrirkomulagið verður á viðskiptasambandi okkar við Bretland.“

Myntsamstarfið kallar á aukinn samruna

Illugi segir að nú standi stjórnmálamenn í Evrópu frammi fyrir nýju verkefni án fordæma.

„Það sem skiptir líka skipta máli fyrir Evrópu, er hvað mun gerast eftir þetta, í til að mynda frönskum stjórnmálum, í Grikklandi, Spáni og alls staðar í Evrópu. Eins og til dæmis í Grikklandi, þeir telja sig hafa verið beittir órétti af ESB. Sérfræðingar hafa sagt að þeir hafi hreinlega misst forræði yfir eigin málum. Hvernig munu menn t.d. túlka þetta þar?“ segir Illugi og heldur áfram:

„Aðalatriðið er að það er myntsamstarfið sem keyrir áfram þörfina fyrir aukinn samruna, og vandinn er að það er vaxandi andstaða og andúð meðal kjósenda fyrir auknu valdaframsali frá þjóðríkjunum. Það verður verkefni fyrir stjórnmálamennina hvernig í ósköpunum þeir ætli að ná því saman,“ segir Illugi sem er hæfilega bjartsýnn á að það takist.

Þarf ekki Evrópusamband fyrir frið og hagvöxt

En það sem skiptir Ísland öllu máli sé að Evrópu gangi vel segir hann og heldur áfram:  „Við eigum allt undir því að það sé góður hagvöxtur, og friður og ró í álfunni“ segir Illugi sem játar því að það þurfi ekki að þýða Evrópusamband: „Menn þurfa bara að sjá fyrir sér þann strúktur, það samstarf, sem best tryggir þetta, almenna velmegun, hagvöxt og frið„

Hann segir margar leiðir geta verið á því, en úr því menn hafi valið evruna: „Verða þau að velja, annað hvort halda þau evrunni, auka samstarf sitt, og þróast í átt að federal state, þar sem þeir þurfa að samþætta ríkisfjármálin, hafa sameiginlega skuldabréfaútgáfu og sameiginlega skattheimtu til að standa undir henni,“ segir Illugi, því allir þessir þættir þurfi að vera til staðar til að myndbandalag gangi upp.

„Annað hvort hafa menn evruna og ná ná þessu fram eða þurfa að horfast í augu við hitt og það væri skelfileg staða.“