Evran hækkaði talsvert stuttu eftir sigur Emmanuel Macron í frönsku forsetakosningunum en lækkaði svo aftur og helst nú stöðug. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Evran náði sex mánaða hápunkti stuttu eftir kosningastórsigur Evrópusinnaða miðjuframbjóðandans Emmanuel Macron í frönsku forsetakosningunum. Ein evra hækkaði upp í 1,1024 dollara en lækkaði svo aftur niður í 1,098 dollara. Macron vill halda í evruna sem framtíðargjaldmiðil Frakklands, en Le Pen, mótframbjóðandi hans vildi losa Frakka undan oki Evrópusambandsins.

Fjárfestar höfðu þegar gert ráð fyrir sigri Macron og hafði verið mikið um hækkanir í Evrópu á alþjóðamörkuðum. Hann hefur meðal annars barist fyrir því að lækka fyrirtækjaskatt, breyta vinnumarkaðnum, en uppi eru efasemdarraddir að Macron geti náð þessum hugmyndum sínum í gegnum þingið. Sér í lagi þar sem að hann er óháður tveimur stærstu flokkunum á þingi og hefur því lítinn stuðning.

Macron klauf sig úr franska sósíalistaflokknum stofnaði eigin flokk, En Marche!, fyrir forsetakosningarnar en stærstu flokkarnir á þingi eru Repúblikanaflokkurinn og franski sósíalistaflokkurinn.

Í kjölfar sigursins hefur Macron einnig tjáð sig um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Hann átti stutt samtal við Theresu May forsætisráðherra Bretlands og að sögn efnahagsráðgjafa hans vilji ný forsetinn ekki refsa Bretlandi, en hann yrði þó harður í horn að taka í samningaviðræðunum.