Í kjölfar þess að ljóst var í gærkvöldi að í seinni umferð frönsku forsetakosninganna munu þau Marion Le Pen og Emmanual Macron mætast styrktist evran og náði sínu sterkasta gildi í fimm mánuði gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum.

Fór gjaldmiðillinn upp í 1,0935 dali þegar hæst nam en síðan hefur hann veikst á ný og stendur hún nú í 1,0869 dölum þegar þetta er skrifað.

Frambjóðendur utan hefðbundnu flokkanna

Kannanir sýna að Macron muni sigra seinni umferðina sem haldin verður 7. maí með öruggum meirihluta, en í fyrri umferðinni munaði rétt rúmum 2% á milli þeirra.

Í fyrri umferðinni tókust 11 frambjóðendur á um atkvæði frönsku þjóðarinnar, en þar sem engum þeirra tókst að ná helmingi atkvæða verður kosið milli þeirra tveggja efstu í seinni umferðinni.

Þar fékk Macron 23,86% og Le Pen 21,43%. Þó þau séu bæði utan hefðbundnu hægri og vinstri flokkanna í landinu er Macron hlynntur Evrópusambandinu og virðist sigurlíkur hans vera til þess fallið að trú á evruna hafi aukist.

Óvissan veikti evruna

Fram að kosningunum virtist gjaldmiðillinn hins vegar hafa veikst vegna óvissunnar um framtíð hans.

Hafði Le Pen lofað því að franska þjóðin myndi fá tækifæri til að kjósa um áframhaldandi veru landsins í sambandinu og þar með talið í evrunni.

Ein evra gefur nú:

  • 119,61 japanskt jen
  • 0,85 breskt pund
  • 1,08 svissneskur franki