Evran veiktist gagnvart Bandaríkjadal í dag eftir að bankaráðsmaður í evrópska seðlabankanum sagði að gefið yrði tímabundið í við skuldabréfakaup bankans fyrir sumarið. Veiktist evran um 1,6% gagnvart dollaranum, en evrópsk hlutabréf hækkuðu í verði. Þýska DAX vísitalan hækkaði um 2,23% og franska CAC um 2,09%.

Í frétt Wall Street Journal segir að evrópski seðlabankinn ætli að halda sig við það að skuldabréfakaupin muni nema 60 milljörðum evra í mánuði að meðaltali. Hins vegar búist bankinn við minni veltu á markaði í sumar og vilji því auka kaupin tímabundið.

Með magnbundinni íhlutun sinni má segja að seðlabankinn "prenti" evrur sem hann notar til að kaupa ríkisskuldabréf á markaði. Þetta ýtir upp verði á skuldabréfum og veikir gengi evrunnar. Ætlunin er sú að gera aðra fjárfestingarkosti en ríkisskuldabréf meira aðlaðandi og þar með ýta undir aðra fjárfestingu. Áætlun seðlabankans var fyrst kynnt í janúar og hófust skuldabréfakaupin í mars.