Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, kynnti í dag breyttar áherslur í örvunaraðgerðum bankans. Vegna versnandi hagvaxtar- og verðbólguhorfa í Evrópu og í heiminum hefur verið ákveðið að auka enn heimildir seðlabankans til að kaupa skuldabréf á markaði og má bankinn nú kaupa 33% af hverjum útgefnum skuldabréfaflokki í stað 25% áður. Enn er stefnt að því að beita 1.100 milljörðum evra með þessum hætti til að örva markaði og hrista hagkerfi álfunnar í gang.

Seðlabankinn hefur endurskoðað hagvaxtarspá sína og spáir nú aðeins 1,4% hagvexti á evrusvæðinu í ár og 1,8% hagvexti árið 2016. Aðeins er gert ráð fyrir 0,1% verðbólgu á svæðinu í ár, en að hún verði komin í 1,1% á næsta ári.

Örvunaraðgerðir seðlabankans munu halda áfram fram að septemberlokum á næsta ári, en Draghi sagði að aðgerðirnar yrðu framlengdar ef þörf krefði.