Seðlabanki Evrópu veitti daglán upp á 3,9 milljarða evra á sérstökum 5% refsivöxtum á miðvikudaginn - en þetta er hæsta upphæð sem hefur verið fengin að láni frá bankanum á slíkum kjörum í þrjú ár. Seðlabankinn vildi hins vegar ekki greina frá því hverjir höfðu sóst eftir láni hjá bankanum, en í frétt Financial Times er leitt að því líkum að um fleiri en einn banka hafi verið um að ræða.

Eftirspurn evrópskra banka eftir því að sækjast eftir slíku láni hjá Seðlabanka Evrópu - á hærri kjörum en bjóðast á markaði - þykir vera til marks um að þeir glími enn við mikil vandamál sökum lausafjárkrísunnar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þriggja mánaða LIBOR-vextir á evrum á millibankamarkaði í London hækkuðu úr 4,73% upp í 4,79% í gær og hafa ekki verið hærri í sex ár. Hækkunin sýnir að fjármálastofnanir eru enn tregar í taumi um að lána hver annarri.

Seðlabanki Evrópu tók frumkvæði á meðal seðlabanka heimsins um reyna stemma stigu við þeirri lausafjárþurrð sem ríkti á peningamarkaði þann 9. ágúst síðastliðinn þegar bankinn setti 94,8 milljarða evra inn á fjármálamarkaði. Þrátt fyrir þær aðgerðir hefur bankinn gert skýran greinarmun á þeirri aðstoð og sjálfri peningamálastefnu bankans, sem miðar að því að halda verðbólgu á evrusvæðinu "undir en í kringum 2%".

Nýjar hagtölur í ágústmánuði um útlánavöxt á evrusvæðinu og peningamagn og sparifé í umferð (M3) styrkja væntingar fjárfesta um að seðlabankinn ætli sér að hækka vexti á komandi mánuðum ef aðstæður á markaði gera slíkt mögulegt. Þrátt fyrir vandræðin á fjármálamörkuðum jukust útlán bankastofnana til einkageirans um 11,2% í síðasta mánuði á ársgrundvelli, auk þess sem lán til atvinnulífsins jukust um 14,2% - sem er það hæsta síðan í ársbyrjun 2000.

Vöxtur í peningamagni, sem Seðlabanki Evrópu telur gefa til kynna hugsanlegan verðbólguþrýsting, jókst um 11,6% í ágúst, sem er litlu minna frá metaukningu í júli þegar peningamagn hækkaði um 11,7%. Financial Times hefur eftir Marco Kramer, hagfræðingi hjá Unicredit í München, að slíkur vöxtur í peningamagni, ásamt vísbendingum um hækkandi verðlag í Þýskalandi, verði líklega til þess beina sjónum evrópska seðlabankans aftur að því forgangsverkefni að halda verðbólgu í skefjum.