Elvar Ingi Möller, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka, telur sennilegt að evrópskur flugmarkaður sé á tímamótum. Samþjöppun sé sennileg líkt og hafi orðið raunin í Bandaríkjunum á árunum 2005-2015. Níu stærstu flugfélög Bandaríkjanna árið 2005 hafa síðan þá sameinast í fjögur félög. Nú bjóði fimm stærstu flugfélög Evrópu um 50% af öllum flugsætum í álfunni, en til samanburðar sé hlutfallið um 80% í Bandaríkjunum. Sætaframboð hafi aukist um 70% í Evrópu frá árinu 2005 en um 40% í Bandaríkjunum á sama tímabili.

Máli sínu til stuðnings benti Elvar á að Norwegian tilkynnti um breytta stefnu fyrir nokkrum vikum. Félagið hafi að jafnaði vaxið um nærri 30% á ári undanfarin ár en það hyggist nú einblína á bætta arðsemi fremur en að horfa til vaxtar. Markmið Norwegian er nú að vaxa um 5-10% á ári næstu þrjú árin.

Eftir fall Wow air í vikunni hefur á annan tug evrópskra flugfélaga farið í þrot á innan við tveimur árum. Monarch og Air Berlin voru með þeim fyrstu haustið 2017 en síðan hafa mun fleiri bæst í hópinn. BBC og Skift birta samantekt á hvaða flugfélög hafa lagt upp laupana að undanförnu. Elvar telur líklegt að gjaldþrot og sameiningar evrópskra flugfélaga haldi áfram á næstu árum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .