„Meginmarkmiðið er að skoða hvernig loftslagsbreytingar koma til með að hafa áhrif á framleiðslu í sjávarútvegi, fiskeldi og ferskvatnsveiðum,“ segir Ragnhildur Friðriksdóttir um Evrópuverkefnið ClimeFish, sem fór af stað fyrir tveimur árum.

„Við erum að skoða bæði helstu áhættur og tækifæri sem fylgja loftslagsbreytinum, og síðan að búa til viðbragðs- og aðlögunaráætlanir fyrir greinina víðsvegar um Evrópu.“

ClimeFish er eitt af nokkrum stórum rannsóknarverkefnum undir regnhlíf rannsókna- og nýsköpunaráætlunar Evrópu er tengjast sjávarútvegi sem Matís tekur þátt í. Fiskifréttir hafa á síðustu vikum fjallað um fleiri slík verkefni.

Eitt þeirra er MareFrame, sem snýst um að þróa nýstárlegar aðferðir við fiskveiðistjórnun þar sem félagslegir og efnahagslegir þættir eru teknir með í reikninginn. PrimeFish snýst um að finna leiðir til að styrkja markaðshæfni greinarinnar og FarFish snýst um að þróa ramma utan um fiskveiðistjórnun á fjarlægum veiðislóðum Evrópuflotans.

Framleiðsla í breyttu umhverfi
Í ClimeFish er röðin komin að því að skoða áhrif yfirvofandi loftslagsbreytinga á veiðar og eldi í sjó og ferskvatni í Evrópu og hvernig hægt sé að viðhalda, eða jafnvel auka, framleiðslu sjávarfangs í breyttu umhverfi.

„Það er mjög misjafnt eftir tegundum og framleiðslukerfum hversu miklar breytingar koma til með að eiga sér stað,“ segir Ragnhildur.

Til þess að reyna að ná utan um alla flóruna í veiðum og eldi í Evrópu var ákveðið að skipta verkefninu upp og taka sérstaklega fyrir 16 tilviksrannsóknir í þremur flokkum: veiðar í sjó, eldi í sjó og svo veiðar og eldi í ferskvatni. Hver tilviksrannsókn tekur eina eða fleiri tegundir fyrir á ákveðnu svæði, þar sem áhrif loftslagsbreytinga eru skoðuð út frá ýmsum hliðum. Í fyrstu eru áhrif hlýnunar á þessar tegundir skoðuð. Út frá því er áhættumat framkvæmt, til að greina helstu áhættur og tækifæri fyrir framleiðsluna, umhverfið, markaði og samfélagið. Loks verða þessar upplýsingar notaðar til að setja upp aðlögunaráætlun, til þess að kerfið í heild sinni sé betur í stakk búið til að takast á við eða nýta sér þessar breytingar. Á meðal þeirra 16 tilviskrannsókna sem teknar eru fyrir í ClimeFish má nefna uppsjávarveiðar í Norðaustur-Atlantshafi, þorsk- og ýsuveiðar í Barentshafi og botnfiskveiðar vestur af Skotlandi. Einnig má nefna fiskeldi í sjó við Grikkland, ferskvatnsveiðar í Gardavatni á Ítalíu og eldi í tjörnum í Ungverjalandi.

„Við erum að skoða alls 25 tegundir í þessum 16 tilviksrannsóknum,“ segir Ragnhildur, „og þá er verið að skoða hver áhrif loftslagsbreytinga geti orðið á þætti eins og vöxt fiskanna, nýliðun og búsvæðaval og allt þar fram eftir götunum og reynt að spá fyrir um hvers konar breytingar muni eiga sér stað allt fram til ársins 2050.“

Horft fram í tímann
„Fyrir hverja þessara tilviksrannsókna eru notuð ýmis líffræðileg líkön til að spá fyrir um áhrif loftslagsbreytinga á þessar tegundir sem um ræðir“, segir Ragnhildur.

Þessi spálíkön ná áratugi fram í tímann þar sem gengið er út frá þremur sviðsmyndum. Bjartsýna sviðsmyndin er byggð á því að hlýnun andrúmsloftsins verði 2°C til ársins 2100, svartsýnasta sviðsmyndin er byggð á því að hitinn muni hækka um fjórar gráður, en sú sem líklegust þykir að verða að veruleika er miðuð við að hækkunin nemi þremur gráðum.

ClimeFish-verkefnið er til fjögurra ára og er sá tími rúmlega hálfnaður. Alls taka 16 stofnanir frá 21 landi þátt í verkefninu, þar á meðal Matís hér á landi.

Ragnhildur hefur ásamt Jónasi R. Viðarssyni og Sigurði Erni Ragnarssyni, starfsfélögum sínum hjá Matís, haldið utan um einn þáttinn í ClimeFish-verkefninu. Sá þáttur verkefnisins snýst um að skoða mögulegar áhættur og tækifæri sem gætu fylgt loftslagsbreytingum og þróa út frá því aðlögunaráætlanir fyrir sjávarútveg, fiskeldi og ferskvatnsveiðar í sjö af þessum sextán tilviksrannsóknum.

„Verkefnið hefur nú þegar safnað fjölda gagna sem nýtt eru til að framkvæma áhættugreiningar í hverri tilviksrannsókn fyrir sig,“ bætir hún við. „Þá eru helstu áhætturnar sem steðja að framleiðslu þessara tegunda til manneldis skoðaðar en líka hvar helstu tækifærin liggi, því í flestum tilfellum eru það einhverjir sem græða og einhverjir sem tapa á þessum breytingum. Inn í þetta eru líka teknar félagshagfræðilegar greiningar og fjárhagslegu hliðarnar á þessu öllu eru skoðaðar.“

Fundir með hagsmunaaðilum
Niðurstöðurnar úr þessum greiningum eru síðan notaðar til að gera viðbragðs- og aðlögunaráætlanir fyrir stjórnvöld og framleiðendur á hverjum stað. Þær áætlanir eru unnar í samvinnu við hagsmunaaðila sem árlega mæta á fundi með starfsfólki ClimeFish-verkefnisins.

Þau Sigurður Örn og Ragnhildur segja þessa fundi með hagsmunaaðilum hafa reynst verkefninu afar mikilvægir. Þar komi fram upplýsingar beint frá þeim sem best þekkja til á hverju svæði fyrir sig. Þau nefna þar sem dæmi kræklingarækt á Spáni.

„Á nýlegum fundi með hagsmunaaðilum þar í landi lögðu þeir mikla áherslu á ágenga tegund sem þeir væru farnir að sjá í auknum mæli, nokkrar meira að segja, sem eru að nærast á skelfiskinum og skaða því framleiðsluna. Við höfðum ekki tekið tillit til þessa í okkar vinnu, en þeir eru að sjá þetta gerast hjá sér. Það eru þeir sem eru á svæðinu og því gífurlega mikilvægt að hlusta á þeirra áhyggjur.“

Fyrir nokkrum vikum hélt Ragnhildur á ársfund verkefnisins í Ungverjalandi, og í framhaldi af því var haldinn fundur þar með hagsmunaaðilum þar sem athyglinni var beint að tjarneldi á vatnakarfa.

Eldi á vatnakarfa er stór framleiðslugrein í Ungverjalandi þar sem framleidd eru 18-21 þús. tonn á ári. Auk þess veita þessar eldistjarnir mikilvæga vistkerfisþjónustu fyrir fjölda fuglategunda og ýta einnig undir blómstrandi stangveiði á vatnakarfa í landinu.

„Á þessum fundum kynnum við okkar spár, áhættumatið og þær aðlögunaráætlanir sem við erum að þróa. Þar í landi er iðnaðurinn strax farinn að hafa miklar áhyggjur vegna hlýnunar, sem þegar er farin að hafa mikil áhrif á eldið,“ segir Ragnhildur.

Vetrartjarnir hlýna
„Þetta gengur þannig fyrir sig hjá þeim að á haustin þurfa þeir að færa fiskinn úr framleiðslutjörnum yfir í minni tjarnir, svokallaðar vetrartjarnir. Á veturna þegar kólnar þá minnkar efnaskiptahraðinn í fiskunum, svo þeir þurfa minna fóður og minna viðhald. Auk þess myndast íshella yfir tjarnirnar sem varnar því að rándýr komist í fiskinn.“

Undanfarin ár hafa menn tekið eftir því að það kólnar ekki jafn mikið í vetrartjörnunum og áður og þessi íshella myndast síður. Þar af leiðandi dregur heldur ekki jafn mikið úr efnaskiptahraða vatnakarfans yfir veturinn og núverandi fyrirkomulag hentar fiskunum því illa, auk þess sem rándýrin komast í fiskinn yfir veturinn.

„Fiskarnir koma þá illa undan vetri og eldið er þess vegna í sumum tilfellum að hefja aðalframleiðslutímann, sem er á vorin, með illa haldinn fisk.“

Þetta hefur í för með sér aukinn framleiðslukostnað og óhagkvæmari rekstur.

„Þeir eru í miklum vandræðum með þetta og eru þegar að kalla eftir lausnum.“

Þau nefna einnig að bráðabirgðaniðurstöður séu komnar fyrir uppsjávarveiðar í Norðaustur-Atlantshafi, þar sem skoðaðar eru veiðar á makríl, kolmunna og síld.

Flækjustig eykst
„Þessar fyrstu spár benda til þess að bæði makríl- og kolmunnastofninn komi til með að stækka töluvert en síldarstofninn komi til með að dragast saman um 5 til 8 prósent í bíómassa.“ Ragnhildur tekur þó fram að um sé að ræða bráðabirgðarniðurstöður og því gætu þessar tölur breyst í framhaldinu.

Menn hafi raunar ekki miklar áhyggjur almennt af þessum litla samdrætti hjá síldinni, vegna þess að aukningin í makríl og kolmunna bæti það ríflega upp. Hins vegar geti menn reiknað með enn frekara flækjustigi í samningaviðræðum um skiptingu aflans milli strandríkja, að minnsta kosti sé miðað við takmarkaðan árangur af samningatilraunum síðustu ár.

„Þarna eins og annars staðar skoðum við bæði tækifærin og áhætturnar sem breytingarnar geta haft í för með sér, og áhætturnar í þessari tilviskrannsókn eru meðal annars þessar gríðarlega flóknu og viðkvæmu samningaviðræður.“

Á þessu svæði benda líkönin sömuleiðis til þess að loftslagsbreytingar komi til með að hafa jákvæð áhrif á rauðátu, sem er aðaluppistaðan í fæðu margra uppsjávarfiska.

„Líkönin sýna að rauðátan muni líklega aukast umtalsvert og þar felast tækifærin í auknum veiðum á rauðátu. Aftur á móti er í þessu áhætta líka því rauðátan er mikilvægur hlekkur í fæðukeðjunni og því óvíst hverskonar áhrif auknar veiðar gætu haft á vistkerfið.“

Norður-Atlantshafið flóknast
Sigurður Örn segir þann mikla mun sem er á uppsjávarveiðum í Norðaustur-Atlantshafi og eldi í tjörnum í Ungverjalandi sýna greinilega hversu margbreytilegar tilviksrannsóknirnar eru sem til skoðunar eru í ClimeFish-verkefninu.

„Stundum er þetta frekar einangrað kerfi þar sem hlýnunin sjálf er það sem helst þarf að skoða, en í öðrum tilfellum ertu kominn með stórt hafsvæði þar sem mörg ríki eiga hagsmuna að gæta og þá þarf að taka fleiri þætti, líkt og þessar samningaviðræður, með inn í jöfnuna. Þannig að þetta eru mjög mismunandi áherslur sem við erum að skoða í hverri tilviksrannsókn,“ segir hann.

„Norður Atlantshafið er hvað flóknast af þeim öllum,“ segir Ragnhildur, „af því allar tegundirnar sem við erum að skoða þar eru deilistofnar. Samningaviðræður um kvótann fyrir þessar tegundum eru í miklum ólestri og það þarf að taka þetta allt með inn í dæmið, því við erum ekki bara að taka á líffræðilegum og vistfræðilegum þáttum, heldur skoðum við alla þessa félags-hagfræðilegu þætti líka og hvernig þeir hafa áhrif. Við skoðum þá til dæmis hvernig framleiðsluhættir og markaðir geta brugðist við og hvaða áhrif þetta getur komið til með að hafa á markaði.“

Áður en verkefninu lýkur, sem verður snemma árs 2020, verða allar niðurstöður teknar saman og viðbragðs- og aðlögunaráætlanir gerðar fyrir sjö af tilviksrannsóknunum sextán.

„Síðan er hugmyndin að birta nokkurs konar stuðningspakka þar sem þessi aðferðarfræði, áætlanir og gagnagrunnarnir allir verða aðgengilegir, ásamt leiðbeiningum og viðmiðunarreglum um hvernig best sé að framkvæma þetta áhættumat og aðlögunaráætlanir. Þessi pakki verður aðgengilegur fyrir fiskveiðistjórnendur og stjórnvöld í Evrópu.“

Þessar upplýsingar á svo að vera hægt að nota til að þróa áfram og yfirfæra á aðrar veiðar og eldi eftir því sem þörf krefur.