„Evrópusambandið hefur aldrei verið markmið í sjálfu sér. Stóra verkefnið okkar núna er atvinnustefna til framtíðar sem gerir okkur kleift að keppa um þekkingarfyrirtæki og nýta þá kosti sem við höfum til þess að byggja upp innlend þekkingarfyrirtæki og fá erlenda frumkvöðla til landsins. Það á að vera markmið okkar,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurður um áherslur flokksins varðandi Evrópusambandið.

Árni Páll segir að Evrópusambandið hafi af hálfu Samfylkingarinnar alltaf verið praktískt tæki til þess að yfirvinna ókostina af óstöðugum gjaldmiðli.

„Hann er ennþá jafn mikið vandamál og það er aðalástæðan fyrir því að við höfum talað fyrir aðild að Evrópusambandinu. Það er mikilvægasti ávinningurinn, að losa fyrirtæki og almenning í landinu undan þessum gríðarlega kostnaði sem óstöðugleiki gjaldmiðilsins og hátt vaxtastig veldur,“ segir hann.

Ef þú værir í þeirri aðstöðu að Ísland gæti gengið í Evrópusambandið með undirskrift þinni í dag, myndir þú skrifa undir?

Árni Páll hlær, en svarar síðan: „Já, þetta er nú góð spurning. Ég myndi nú vilja lesa samninginn. Ég hef alltaf sagt sjálfur að ég telji að Ísland geti fengið mjög góðan aðildarsamning, en það skiptir máli hvernig þar væri búið um hnútana. Að því tilskildu þá er ég enn þeirrar skoðunar já, að aðild að Evrópusambandinu væri heppileg fyrir Ísland, með fullnægjandi samningi.“

Árni Páll segir það vera rangt að aðildarviðræður hafi enga efnislega þýðingu, þvi að öðrum kosti hefðu núverandi aðildarþjóðir einfaldlega sleppt þeim og gengið beint inn í sambandið.

Árni Páll er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .