Meiri hagvöxtur var á evrusvæðinu á fyrsta ársfjórðungi heldur en í Bretlandi að því er BBC greinir frá .

Töluvert hægðist þó á vexti í evrusvæðinu en hann nam 0,4% á fyrsta ársfjórðungi 2018 samanborið við 0,7% hagvöxt á fjórða ársfjórðungi ársins 2017. Hagvöxtur í Bretlandi var 0,1% á fyrsta á ársfjórðungi. Á síðustu tólf mánuðum hefur hagvöxtur á evrusvæðinu verið 2,5%.

Í frétt BBC um málið er haft eftir Barret Kupelian, hagfræðingi hjá PricewaterhouseCoopers að á fimm af þeim sjö ársfjórðungum, sem liðnir eru frá Brexit atkvæðagreiðslunni, hafi hagvöxtur verið meiri á evrusvæðinu en í Bretlandi. Það gefi til kynna að breska hagkerfið hafi ekki náð að njóta ávinnings af betra efnahagsástandi í heiminum til fulls.