Ninna Hafliðadóttir markaðsstjóri Iceland luxury telur að á síðasta ári hafi um 10 til 12 þúsund ferðamenn komið gagngert í lúxusferðir og ætla má að þeir hafi lagt allt að 12 milljarða króna í hagkerfið að því er Morgunblaðið greinir frá.

Segir hún að meðaleyðsla hvers lúxusferðamanns hér á landi nemi um einni milljón á fimm daga ferð um landið en til samanburðar eyði venjulegur ferðamaður um 240 þúsundum króna á sjö daga ferðalagi. Þó meðaleyðsla þeirra sem hún kallar fátætisferðamanna sem sæki lúxusferðir sé um 200 þúsund krónur á dag, geti eyðslan jafnvel numið hærri upphæð en það.

„Þetta er fljótt að safnast saman. Klukkutími í þyrlu kostar til dæmis 360 þúsund. Það er því æskilegt að róa að því öllum árum að fjölga fágætisferðamönnum til landsins,“ segir Ninna sem segir mikinn vöxt hafi verið í komu slíkra ferðamanna á undanförnum árum.

„Þeir eru heldur ekki jafn næmir fyrir sveiflum í gengi krónu. Fágætisferðamenn heimsækja landið sömuleiðis jafnt yfir árið sem er okkur í vil. Í helmingi tilfella koma þeir utan háannatíma.“

Flestir ferðamenn í lúxusferðum koma frá Norður Ameríku sem og stór hópur frá Evrópu að hennar sögn. „Þeir koma samt sem áður alls staðar að. Nokkur fjöldi kemur t.d. frá Asíu, SádiArabíu og Indlandi.“ Félagið Iceland luxury er að stærstum hluta í eigu Icelandair Group, Bláa lónið og Landsbankans auk ýmissa aðildarfélaga.