Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins segir að stjórnmálamenn hafi fundið ný útgjöld á móti þeim miklu tekjum sem komið hafi inn í uppsveiflu undanfarinna ára enda skattprósentur hér á landi í hæstu hæðum.

„Þegar tekjustofnar drógust saman eftir 2008 voru skattar hækkaðir umtalsvert. Þó að oft hafi verið talað um tímabundnar aðgerðir verður ekki annað séð en nú, árið 2017, sé búið að festa þessar skattahækkanir kirfilega í sessi,“ segir Ásdís í pistli í Viðskiptablaðinu í dag og bendir á að í samanburði við flest ríki sé Ísland háskattaríki

„Sem dæmi má nefna að á árunum 2013 til 2016 hækkuðu laun opinberra starfsmanna um 30% að meðaltali. Á sama tíma jókst launakostnaður hins opinbera um áttatíu milljarða króna.“ Segir hún að þrátt fyrir að núverandi hagsveifla sé óvenjulöng taki þær allar enda og nú séu vísbendingar um að farið sé að hægja á hagvextinum.

„Það er því áhyggjuefni að þrátt fyrir að vera á hápunkti einnar lengstu uppsveiflu sögunnar þá er afkoma hins opinbera aðeins rétt yfir núlli,“ segir Ásdís sem bendir á að stjórnmálamenn geti ekki treyst á sama tekjuvöxt áfram. „[M]eð eina mestu skattheimtu á byggðu bóli er varla svigrúm heldur til frekari skattahækkana til að fjármagna vaxandi útgjöld.

Framundan er mikilvægur vetur, hið opinbera mun eiga fyrsta orðið í þessari kjaralotu og þannig leiða launaþróun á vinnumarkaði. Ef marka má forgangsröðun undanfarinna ára er ástæða til að óttast töluverðar launahækkanir opinberra starfsmanna og að treyst verði á auknar skatttekjur til að fjármagna þær. Er það virkilega boðleg stefna til lengdar? Tekjuvöxtur ríkisins mun taka enda. Við eyðum ekki sömu krónunni tvisvar.“

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs SA.