Kristín Ingólfsdóttir, fráfarandi rektor Háskóla Íslands, hélt sína síðustu brautskráningarræðu við skólann nú í dag. Hvatti hún stjórnvöld til að stórauka fjárfestingu í menntun, vísindum og nýsköpun.

Kristín hefur veriðr ektor háskólans undanfarin tíu ár, en Jón Atli Benediktsson mun senn taka við starfi hennar eftir að hafa sigrað rektorskosningarnar í vor. Eitt síðasta verk Kristínar var að kveðja 2081 kandídat frá öllum fræðasviðum háskólans.

„Hlutverk háskóla er að skapa umhverfi sem laðar fram ögrandi spurningar, hvetur til þróunar nýrra hugmynda og þenur út mörk þekkingarinnar. Umfram allt eiga háskólar að næra forvitni. Enginn veit hvert vísindin leiða á endanum, þau eru veröld án endimarka en það er það sem gerir vísindin svo spennandi!“ sagði Kristín meðal annars í ræðu sinni.

Þá benti hún einnig á að Íslendingar verðu meira fjármagni til kaupa á gosdrykkjum og sælgæti en varið sé til starfsemi Háskóla Íslands í fjárlögum. Jafnframt keyptu Íslendingar kartöfluflögur fyrir tvisvar sinnum þá fjárhæð sem varið er til læknadeildar.

Kristín benti í ræðu sinni á að skipta mætti tekjum háskólans í tvo hluta. Annars vegar væru um fimm milljarða króna sértekjur skólans, einkum rannsóknastyrkir, sem aflað sé í alþjóðlegri samkeppni, en einnig kæmu rausnarleg framlög frá velgjörðarmönnum.  Hins vegar sagði hún beint framlag ríkisins til skólans í fjárlögum liðlega 12 milljarða króna.