*

þriðjudagur, 24. október 2017
Erlent 19. júní 2017 13:26

Eykur framleiðslu á rafrettum

Philip Morris framleiðandi Marlboro og Chesterfield hyggst auka við framleiðslu sína á rafrettum.

Ritstjórn
epa

Sígarettuframleiðandinn Philip Morris tilkynnti fyrr í dag um að fyrirtækið hyggst fjárfesta um 320 milljónum dollara í nýrri verksmiðju í Dresden í Þýskalandi. Mun verksmiðjan framleiða tóbaksvöruna sem notuð er í rafrettur Philip Morris sem kallast IQOS. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Samkvæmt fyrirtækinu er munurinn á IQOS og venjulegum sígarettum sá að IQOS brennir ekki tóbak heldur hitar það að hitastigi rétt undir brunastigi og myndar þannig reykgufu sem á að fullnægja þörfum reykingamanna. Er varan ætluð þeim sem vilja ekki hætta að reykja en vilja takmarka skaðann af hefðbundnum reykingum.

Fyrirtækið sem er meðal annars framleiðandi Marlboro hefur fjárfest um 3 milljörðum dollara síðasta áratuginn í þróun á IQOS. Samkvæmt frétt Bloomberg frá því í maí síðastliðnum sjá forsvarsmenn Philip Morris mikil tækifæri í IQOS. Fyrirtækið hefur selt um 1,8 milljón stykki af vörunni og sjá stjórnendur fram á en frekari vöxt. 

Verksmiðjan í Dresden mun verða 80 þúsund fermetrar að stærð og er áætlað að hún muni skapa um 500 störf.