Eyrir Invest, Arle Capital Partners og meðfjárfestar hafa gengið frá samkomulagi um sölu á Stork til bandarísku iðnaðarsamsteypunnar Fluor Corporation fyrir 695 milljónir evra, eða sem nemur um 98 milljörðum króna.

Stork er leiðandi þjónustuaðili fyrir fyrirtæki í olíu- og gasiðnaði, efnaiðnaði og orkuiðnaði en fyrirtækið starfar m.a. í Norðursjó, meginlandi Evrópu, Ameríku, Afríku, mið-Austurlöndum og Ástralíu. Velta Stork nam um 211 milljörðum króna á síðasta ári og EBITDA félagsins var um 11,5 milljarðar króna.

Fluor Corporation er eitt stærsta verktakafyrirtæki heims. Félagið þjónað viðskiptavinum í orku- og efnaiðnaði, stjórnvöldum, iðnaði og innviðauppbyggingu auk námuiðnaði um víða veröld. Fluor er í 136 sæti á lista FORTUNE yfir 500 stærstu félög heims, starfsmenn eru 40.000 í öllum heimsálfum og tekjur félagsins á árinu 2014 námu 21,5 milljörðum bandaríkjadala.

Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri eigna hjá Eyri Invest segir að salan á Stork marki tímamót fyrir Eyri Invest:

„Með sölunni lýkur þessu stóra verkefni sem hófst 2007 þegar Eyrir ásamt meðfjárfestum keypti iðnaðarsamsteypuna Stork B.V. sem rak m.a. Fokker Technologies, Stork Tecnical Services og Stork Food Systems en kaup Marel hf. á því síðastnefnda voru meginástæða fyrir aðkomu Eyris Invest að verkefninu. Þau kaup voru fyrsta stóra skrefið í uppbyggingu Marel sem leiðandi fyrirtækis á heimsvísu í sinni iðngrein og lykilforsenda þess að gera Marel að þeim leiðtoga sem félagið er í dag.“

Gert er ráð fyrir að salan á Stork verði að fullu frágengin á fyrri árshelmingi 2016 að höfðu samráði og upplýsingagjafar til hagsmunasamtaka starfsmanna og verkalýðsfélaga í Hollandi og veittum heimildum frá samkeppnisyfirvöldum.