Eyrir Invest, Arle og meðfjárfestar hafa gengið frá samkomulagi um sölu á Fokker Technologies til bresku iðnaðarsamsteypunnar GKN plc. Söluverðið nemur 706 milljónum evra, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Fjárhæðin jafngildir tæpum 105 milljörðum íslenskra króna.

„Það er ánægjulegt að ljúka vel heppnaðri sölu á Fokker á þessum tímapunkti,“ segir Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri eigna hjá Eyrir Invest.

„Rekstur Fokker hefur gengið vel að undanförnu og framtíðarhorfur eru góðar. Stjórnendur og fjárfestar hafa aldrei misst sjónar á langtímamarkmiðum sínum fyrir félagið og þeim möguleikum sem í því fólust. Með sölu til GKN náum við okkar helstu markmiðum og við erum því afar sátt við árangurinn auk þess sem við teljum að salan nú sé mjög jákvæð fyrir félagið, hluthafa, starfsmenn og viðskiptavini,“ segir hann.

Áætlað er að salan á Fokker verði formlega að fullu frágengin eigi síðar en á fjórða ársfjórðungi að uppfylltum skilyrðum um upplýsingagjöf til hagsmunasamtaka starfsmanna og verkalýðsfélaga í Hollandi, og veittum heimildum frá stjórnvöldum í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu.

Fokker er sérhæfður undirverktaki á sviði flugvélaframleiðslu. Fokker hannar, þróar og framleiðir íhluti, rafkerfi og lendingarbúnað fyrir marga af helstu flugvélaframleiðendum heims. Hjá fyrirtækinu starfa nærri 5.000 manns, höfuðstöðvar Fokker eru í Hollandi en félagið rekur verksmiðjur og starfsstöðvar í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Velta Fokker árið 2014 nam 758 milljónum evra.