Eyþór Arnalds hefur eignast ríflega fjórðungshlut í félaginu Þórsmörk sem er eignarhaldsfélag útgáfufélagsins Árvakur hf. sem gefur út Morgunblaðið. Áður átti Samherji 18,43% hlut í félagið Kattarnef ehf. en við sölu á öllum hlutum félagsins til Eyþórs er Samherji farið úr eigendahópnum. Hann keypti jafnframt 6,14% hlut Síldarvinnslunnar hf. og 2,05% hlut Vísis hf., og á alls 26,62% hlut í blaðinu.

Eyþór segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann beri mikla virðingu fyrir Morgunblaðinu og Mbl.is. „Þetta hvílir á gömlum merg,“ segir hann.

„Það er breytt neyslumynstur á fréttum og menningarefni. Íslenskir fjölmiðlar eru í tvöfaldri baráttu, bæði að takast á við tæknibreytingar og nýta þær og hins vegar að vera í þeirri stöðu að vera með íslenska tungu og íslenska menningu. Það er mjög mikilvægt fyrir Ísland að vera með sterka fjölmiðla sem geta miðlað íslensku efni. Þó að aðgangur á erlendu efni sé jákvæður - þá þýðir það líka það að íslenskt efni þarf að vera gott, áhugavert og miðlað vel. Þetta er almenna staðan,“ segir Eyþór Arnalds um stöðu fjölmiðla á Íslandi.

Spurður út í kaupverðið, segir Eyþór að hann vilji láta kaupin ganga í gegn áður en hann tjáir sig meira. Spurður að því hvort að breytingar verði á rekstri félagsins segir Eyþór: „ Ég er einfaldlega að koma inn í öflugan eigendahóp, þetta er ákveðin endurnýjun.“ Að lokum segir Eyþór að það hafi ekkert verið rætt um framhaldið og að þau séu einungis að taka fyrstu skrefin.