Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson, fyrrverandi slitastjórn Glitnis, fengu 1,1 milljón evra, tæplega 140 milljónir króna frá Glitni í lok desember fyrir það að fella niður skaðleysissjóð sem tryggja átti þau fyrir hugsanlegum lögsóknum vegna starfa þeirra fyrir Glitni. Þetta kemur fram í ársreikningi Glitnis fyrir árið 2017.

Greiðslan kemur ári eftir að Glitnir greiddi Steinunni og Páli 5,3 milljónir evra, um 670 milljónir króna, gegn því að skaðleysissjóðurinn yrði minnkaður úr 68 milljónum evra í 3 milljónir evra, eða sem samsvarar lækkun úr 6,8 milljörðum króna í 380 milljónir króna. Mismunurinn var greiddur út til skuldabréfaeigenda Glitnis.

Skaðleysissjóðurinn átti að vera virkur í þrjú ár en því til viðbótar sammæltust Glitnir og slitastjórnin fyrrverandi um að taka út 10 milljóna evra tryggingu, um 1,2 milljarða króna, til tíu ára til að mæta kostnaði af hugsanlegum lögsóknum á hendur Steinunni og Páli vegna starfa fyrir Glitni.

Eftir samkomulagið í síðasta mánuði var afgangur skaðleysissjóðsins, 2 milljónir evra eða um 250 milljónir króna, greiddur út til skuldabréfahafa Glitnis í lok desember.

Fengið um 2 milljarða frá Glitni

Greiðslurnar til Steinunnar og Páls vegna niðurfellingar skaðleysissjóðsins koma til viðbótar greiðslum vegna vinnu fyrir Glitni, sem námu á annan milljarð króna. Slitastjórnin fékk 1,1 milljarð króna greiddan á árunum 2011-2015, en ekki er sundurliðað sérstaklega hverjar greiðslur til slitastjórnarinnar voru fyrir þann tíma í ársreikningum Glitnis.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Skúli Mogensen umbreytir milljarða láni til Wow air í hlutafé
  • Lýður og Ágúst Guðmundssynir högnuðust vel á skráningu Bakkavarar á markað
  • Umfjöllun um gjaldþrot United Silicon
  • Viðtal við Pam Coffey sem segir markþjálfun vera í sókn
  • Olíuleit á Drekasvæðinu er í uppnámi eftir að CNOOC og Petoro skiluðu óvænt sérleyfum til leitar og vinnslu
  • Nýtt veitingahús rís við Arnarnesvoginn í Garðabæ
  • Umfjöllun um umsvif lífeyrissjóða á íslenskum mörkuðum
  • Ítarlegt viðtal við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans
  • Umfjöllun um frönsku kvikmyndahátíðina sem haldin er í 18. skipti
  • Nordic angan framleiða ilmkjarnaolíur úr íslenskum jurtum
  • Viðtal við Unni Elfu Hallsteinsdóttur, nýjan verkefnastjóra hjá Samtökum atvinnulífsins
  • Óðinn er á sínum stað og fjallar um heilbrigðiskerfið og skattheimtu
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Bjarna Benediktsson og skattamál