Á miðnætti á laugardag rann út frestur til að sækja um stofnframlag frá ríkinu til byggingar svonefndra Leiguheimila að danskri fyrirmynd, en nýleg húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra hafa opnað fyrir byggingu þeirra.

Sóttu fjórtán aðilar um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa 571 íbúð, víða um land. Íbúðalánasjóður annast úthlutunina sem byggt verður á könnun um hvar þörfin verður mest, en ein meginforsenda úthlutunarinnar er að stuðningurinn leysi úr brýnni þörf.

Úthlutar 1,5 milljörðum

Mun sjóðurinn úthluta 1,5 milljarði króna á næstu vikum til nýbygginga Liguheimila til félagasamtaka, sveitarfélaga eða lögaðila sem uppfylla ákveðin skilyrði.

Er stefnt að því að á næstu fjórum árum verði 2.300 svonefnd Leiguheimili reist sem verði ætluð fyrir fólk með tekjur undir meðaltekjum í tveimur lægstu tekjufimmtungunum.

Langtímaleiga með allt að helmingi lægri húsnæðiskostnaði

Munu íbúar öðlast rétt til öruggrar langtímaleigu, þar sem greiðslur eiga að vera að meðaltali 20-30% lægri en markaðsleiga er í dag. Að teknu tilliti til húsnæðisbóta getur í sumum tilfellum húsnæðiskostnaður orðið allt að helmingi lægri en nú er.

Stuðningur ríkisins verður 18% en sveitarfélaga 12%, sem getur verið í formi niðurfellingar lóðagjalda og annað slíkt.

Meðal þeirra leigufélaga sem hafa sótt um stofnframlög eru:

Háskólinn í Reykjavík sem sótt hefur um byggingu 113 íbúða í Reykjavík og Félagsbústaðir hafa sótt um byggingu 85 íbúða í Reykjavík. Almenna íbúðafélagið, sem stofnað var af ASÍ og BSRB, hefur sótt um byggingu 147 íbúða á höfuðborgarsvæðinu.

Húsnæðisnefnd Kópavogs hefur sótt um byggingu 33 íbúða í Kópavogi, og Brynja, hússjóður Öryrkjabandalags Íslands hefur sótt um byggingu 107 íbúða á höfuðborgarsvæðinu og nálægum sveitarfélögum auk 10 íbúða á Akureyri. Samanlagt gerir það 361 íbúð á höfuðborgarsvæðinu.

Búseti Norðurlandi/Búfesti hefur sótt um byggingu 26 íbúða á Akureyri og Eyjafjarðarsveit og Íbúðafélag Hornafjarðar hefur sótt um byggingu 5 íbúða í bænum og Ísafjarðarbær sem sótt hefur um byggingu 13 íbúða.

Sveitarfélagið Skagafjörður fyrir hönd Skagfirskar leiguíbúðir hefur sótt umbyggingu 8 íbúða í Skagafirði og Búhöldar hsf hefur sótt um byggingu 6 íbúða í sveitarfélaginu.