*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 16. febrúar 2018 12:02

Fá 390 milljónir í aukið hlutafé

Lyfjafyrirtækið Florealis eykur hlutafé um tæpar 400 milljónir króna. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leiðir fjárfestahópinn.

Ritstjórn
Kolbrún Hrafnkelsdóttir, forstjóri Florealis, og Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, skrifa um samning um hlutafjáraukningu.
Aðsend mynd

Lyfjafyrirtækið Florealis ehf. hefur lokið 390 milljóna króna hlutafjáraukningu með aðkomu nýrra fjárfesta. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leiðir hóp fjárfesta sem leggja félaginu til fjármagn en auk sjóðsins taka einkafjárfestar og núverandi fjárfestahópur, Einvala fjárfesting, þátt í hlutafjáraukningunni. 

Florealis þróar og markaðssetur skráð jurtalyf og lækningavörur. Fyrstu vörur félagins komu á markað á Íslandi á liðnu hausti. Félagið hefur gert samning við tvær stærstu apótekskeðjur Svíþjóðar um sölu á vörunum og koma þær á markað á næstu vikum.

Fjármagnið verður nýtt til að styðja við markaðssetningu vörulínunnar á erlendum mörkuðum auk þess að bæta við nýjum lyfjum síðar á árinu segir í fréttatilkynningu. „Það eru spennandi tímar framundan með aðkomu þessara öflugu fjárfesta,“ segir Kolbrún Hrafnkelsdóttir, forstjóri Florealis. 

„Viðtökurnar við okkar fyrstu lyfjum og lækningavörum hafa verið frábærar hér á Íslandi og við erum í startholunum með tveimur stærstu apótekskeðjum Norðurlandanna að markaðssetja vörulínuna í Svíþjóð á næstu vikum.“ 

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins segir horfurnar bjartar fyrir sjóðinn á komandi árum. „Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur verið leiðandi um langt árabil í fjármögnun sprotafyrirtækja,“ segir Huld.

„Florealis fellur vel að fjárfestingarstefnu sjóðsins og við fögnum því að leiða öflugan hóp fjárfesta í þessu verkefni. Félagið er nú að fara í vaxtarferli eftir vel ígrundaða vöruþróun og uppbyggingu.“ 

Nú fást tvö jurtalyf (Lyngonia við þvagfærasýkingum hjá konum og Harpatinum við vægum gigtarverkjum) auk vörulínu við óþægindum og sýkingum á kynfærasvæði kvenna, frunsukrem og bólukrem í öllum helstu apótekum. Fljótlega er von á tveimur vörum til viðbótar og þrjú lyf til viðbótar eru í skráningarferli hjá lyfjayfirvöldum.