Ef sjóðirnir fjórir sem keyptu 29% hlut í Arion banka á dögunum nýta sér kauprétt sinn á 22% hlut til viðbótar greiða þeir samtals 85 milljarða króna fyrir 51% eignarhlut í bankanum.

Eitt af skilyrðunum fyrir nauðasamningagerð Kaupþings á sínum tíma var að búið gæfi út og framseldi skuldabréf að upphæð 84 milljarða króna sem tryggt yrði með veði í skuldabréfum útgefnum af Arion banka sem og hlut Kaupþings í Kaupskilum, sem er félagið sem haldið hefur utan um 87% hlut Kaupþings í Arion banka.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en að sögn sérfræðinga sem blaðið hefur rætt við er upphæðin fyrir 51% eignarhlutnum engin tilviljun enda svipuð og uppgreiðslufjárhæð skuldabréfsins sem Kaupþing skuldbatt sig til að standa skil á innan tilskilins tímafrests.

Keyptu skuldabréf fyrir innlán í erlendri mynt

Annað helsta stöðugleikaskilyrða nauðasamninganna var að Kaupþing myndi lengja í erlendri fjármögnun Arion banka og var því ákveðið að bankinn gæfi út skuldabréf í erlendum gjaldeyri að fjárhæð ríflega 747 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nam á þeim tíma um 97 milljörðum króna.

Kaupþing myndi svo kaupa bréfið með innlánum sínum í erlendum gjaldeyri hjá Arion banka, en nú þegar hefur bankinn endurgreitt 650 milljónir dala af bréfinu.

Fá ekki endurgreiðslur fyrr en skuldabréf er fullgreitt

Hins vegar hefur félagið ekki heimild til að færa eigenda bréfsins, Kaupþingi, endurgreiðslurnar fyrr en skuldabréfið sem Kaupþing gaf út að fjárhæð 84 milljarðar króna hafi verið greitt upp.

En ef gengið verður frá fyrrnefndri kaupréttarsölu á 22% til viðbótar á svipuðu gengi og nýliðin sala var á, losna því að minnsta kosti 650 milljónir dala til eigenda Kaupþings, sem samkvæmt núverandi gengi jafngildir um 71 milljarði íslenskra króna.